Maduro tilbúinn til viðræðna við andstæðinga

13.09.2017 - 04:06
epa06156716 President of Venezuela, Nicolas Maduro, speaks at a press conference with international media at the Miraflores Palace in Caracas, Venezuela, 22 August 2017. Maduro commented on several issues including the poor relations with the United
 Mynd: EPA
Forseti Venesúela kveðst reiðubúinn til viðræðna við stjórnarandstæðinga. Frá þessu greindi hann á ríkisstjórnarfundi í kvöld að sögn AFP fréttastofunnar. Viðræðurnar verða haldnar fyrir milligöngu þeirra Danilo Medina, forseta Dóminíska lýðveldisins, og Jose Luis Rodriquez Zapatero, fyrrum forsætisráðherra Spánar.

Stjórnarandstaðan heldur til fundar við forseta Dóminíska lýðveldisins í dag og ber fram fyrir hann hugmyndir sínar um lausn á vandamálum ríkisins, segir í tilkynningu frá andstöðunni. 

Hart hefur verið sótt að Nicolas Maduro, forseta Venesúela, vegna djúprar efnahagslægðar í landinu. Skortur á matvælum og lyfjum hefur orðið til þess að fjöldi fólks hefur haldið á götur borga landsins og krafist afsagnar forsetans. Mótmælin hafa verið blóðug, en alls hafa 125 látið lífið í mótmælum síðan í apríl.