Maðurinn fyrr á ferðinni í Ástralíu

20.07.2017 - 04:22
epa06097797 An undated handout photo made available by the Gundjeihmi Aboriginal Corporation on 20 July 2017 shows an edge-ground hatchet head being excavated at the Madjedbebe rock shelter in the Kakadu National Park, Northern Territory, Australia. New
 Mynd: EPA  -  AAP/GUNDJEIHMI ABORIGINAL CORPOR
Við fyrstu sýn virðist fornleifafundur í Ástralíu benda til þess að menn hafi sest þar að um 18 þúsund árum fyrr en áður var talið. Aldursgreiningar á haganlega útskornum hlutum í litlum helli á norðurhluta landsins benda til þess að innfæddir Ástralir hafi komið þangað fyrst fyrir um 65 þúsund árum.

Fornleifafræðingar grófu upp hluti sem þeir telja vera heimsins elstu steinaxir og okkursteina, sem talið er að hafi verið notaðir til listmunagerðar. Chris Clarkson, aðstoðarprófessor við háskólann í Queensland, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að fundurinn hafi mikil áhrif á allt frá sögunni um flutninga fólks frá Afríku til útdauða dýraríkis og þekkingu innfæddra Ástrala á eigin sögu. Hann segir hlutina sem fundust í neðsta lagi Madjedbebe hellisins sýna fram á að skapandi hópur fólks hafi numið land í Ástralíu fyrir þessum 65 þúsund árum. Steinaxirnar hafi verið haganlega gerðar og fjöldi fallegra muna skreyttum gljásteinum og okkursteinum.

Fornleifafræðingar nutu aðstoðar fólks af Mirra ættflokknum, sem eru réttmætir eigendur landsins þar sem hlutirnir fundust. Frá áttunda áratug síðustu aldara hafa fundist yfir tíu þúsund fornleifaminjar í neðstu lögum hellanna í norðurhluta Ástralíu.

Hægt er að lesa nánar um uppgröft fornleifafræðinganna í nýjasta hefti vísindaritsins Nature.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV