Maður með hjálm

Bókmenntir
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Maður með hjálm

Bókmenntir
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
22.01.2016 - 17:13.Guðni Tómasson.Víðsjá
Sigurbjörg Þrastardóttir fjallaði um stríð, hjálma og ritstörf í Víðsjá á Rás 1. Sigurbjörg er vikulegur pistlahöfundur í þættinum á fimmtudögum.

Þessi pistill heitir Maður með hjálm. Nú verður útskýrt hvers vegna.

Ég mætti á fund í vikunni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þetta var fundur í litlum starfshópi, sem heldur utan um rithöfund sem hefur þurft að flýja heimaland sitt, illu heilli, en hefur fengið hér alþjóðlegt skjól og næði í eitt til tvö ár. Reykjavík er sumsé partur af neti svonefndra skjólborga, ICORN, International Cities Of Refuge Network.

Stuttu á eftir mér mætti á fundinn íslenskur höfundur, sem hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarna daga, í tengslum við umræðu um listamannalaun. Hann kom inn og lagði frá sér hjálminn, sem er nýstárlegur reiðhjólahjálmur og líkist helst Stahlhelm hjálmum liðinna heimsstyrjalda þar sem menn létu vaða úr skotgröfum í þeirri von að grannar úr andstæðu liði yrðu þar fyrir – eða önduðust a.m.k. úr vosbúð og veiki. Hjálmurinn lá á borðinu og rétt áður en fundurinn hófst, var hent á lofti þeirri skrýtlu að þessi ágæti höfundur þyrfti eiginlega sjálfur á skjólborg að halda. Kúbanski höfundurinn, sem dvelur hér í ár, vissi áreiðanlega ekki um hvað við vorum að tala þarna við borðið, en hann er hingað kominn vegna þess að pólitísk yfirvöld á Kúbu hafa gert líf hans óbærilegt, m.a. vegna pistla þar sem hann beinir sjónum sínum að undirstöðum samfélagsins. Verk hans fást ekki lengur útgefin og ólíft fyrir hann í heimalandinu þótt sakaskráin sé hrein. Á undan kúbverska höfundinum dvaldi hér palestínskt ljóðskáld frá Beirút, tvöfaldur útlagi, sem gagnrýndi sýrlensk yfirvöld og þurfti eftir það að flýja land. Það var fáránlegt að horfa á reiðhjólahjálm íslenska höfundarins, og bera, með skrýtlunni, stöðu hans saman við hina ofsóttu erlendu höfunda. Fáránlegt, vegna þess að aðsóknin að honum – ég nota ekki hugtakið ofsóknir, athugið – grundvallast ekki á því hvað hann skrifar eða að hann skrifi yfirleitt, heldur aðallega á því að hann skrifi ekki nógu mikið. Ég veit ekki um land þar sem menn þurfa að skýla sér á bakvið ímyndaða hjálma fyrir þær sakir að skrifa ekki nógu mikið.

Árleg umræða

Nú er ekki víst að hlustendur hafi allir fylgst með umræðum síðustu daga, þetta fer fram í tilteknum kimum, netheimar loga, eins og sagt er – en anginn sem tengist helst viðkomandi höfundi snýst um afköst, eða „framleiðni“, þeirra sem hljóta ritlaun. Þar hafa tilteknir, gamalreyndir miðlar, séð sig knúna til þess að birta heimaunna lista yfir hitt og þetta, þar sem heldur þrengir að heildarmynd. Greinin, þar sem birt var yfirlit yfir „höfundaverk“ nokkra helstu höfunda landsins, skýrði þá ákvörðun að birta einungis titla útgefinna bóka, svona: „Ekki verður litið til þýðinga né leikritunar – en slík skrif eru oftar en ekki sérpöntuð af leikhúsunum og greitt fyrir þau sérstaklega.“ Þetta er einkennileg staðhæfing – því í landinu starfa þrjú atvinnuleikhús og teljandi á fingrum annarrar handar verkin sem þau panta frá íslenskum höfundum á ári. Hins vegar eru hér virkir yfir sextíu sjálfstæðir atvinnuleikhópar, og þeir sem skrifa fyrir þá gera alla jafna ekki ráð fyrir að fá greitt samkvæmt töxtum, heldur taka á sig, með öðrum í hópnum, þá margháttuðu óvissu sem snýr að aðsókn, uppsetningarstyrkjum og útkomu. En nóg um það, þetta hefur væntanlega verið margleiðrétt.

Magnmæling

Við það að afmarka mat á starfi höfunda við útgefnar bækur er sitthvað fleira að athuga. Hvert einasta ljóð sem er frumbirt í tímariti, safnbók eða á sýningu, telur, þegar framvinda höfundaferils er metin. Hver einasta smásaga, sömuleiðis. Þýðingar erlendis telja, og taka einnig töluverðan tíma, þar sem höfundar vinna alla jafna með þýðendum sínum, og yfirlestur og samræður um texta á öðru tungumáli verða ekki unnin fyrir hádegi á einum degi, hvort sem ljóðið er stutt eða skáldsagan löng. Hver einasta upplestrarferð til útlanda telur, ekki síður vegna þess í leiðinni svara höfundar ótölulegum fjölda spurninga um íslenskar bókmenntir og menningu, og starfa þannig ekki bara fyrir sjálfa sig heldur landið og miðin samanlagt. Hvert viðtal um menningartengd efni í fjölmiðlum telur, dómnefndarstörf í ljóðakeppnum og upplestrarkeppnum skólanna, félagsstörf fyrir hönd stéttarinnar, jafnvel seta í starfshóp um móttöku ofsóttra höfunda. Áfram mætti telja upp ólaunuð verk sem rithöfundar – og aðrir listamenn að breyttu breytanda, sem fá færi á að helga sig greininni – taka að sér til þess að efla sig og aðra og stuðla að því að menningarloginn blakti á skari hér í stormum tíðanna. En aðallega má þó benda á að samkvæmt reglum listamannalauna er heimilt að svipta fólk launum, telji sannað það það sinni ekki list sinni. Þar sem um ekkert slíkt hefur verið að ræða, er ljóst að umsóknir og framvinduskýrslur umræddra launþega hafa þegar sagt allt sem þarf.

Innihald og útgáfa

Ég fer svo ekki út í það sem segir sig í raun sjálft, þróun hugmynda og annað undirbúningsstarf sem allir sinna sem vinna, blaðamenn líka, látum hér staðar numið við það sem vantar á lista þeirra sem telja sig þess umkomnir að meta afköst annarra. Þó má nefna að bækur koma ekki út nema útgefandi með peninga sé til staðar, og því eru ónefndar í öllum þessum umræðum (– þið athugið að ég er löngu hætt að tala um manninn með hjálminn, þetta er orðið almennt, því almennt dragast allir listamenn inn í þetta árlega fár –) sem sagt, því eru ónefndar bækurnar sem eru að koma út, eiga enn eiga eftir að koma út, eða komu ekki út vegna þess að forlög fóru á hausinn eða ekkert forlag hafði pláss fyrir verkið. Eða eins og segir í skopmyndinni frægu; We are sorry, Mr. Tolstoy. Svo má líka nefna, eins og Eiríkur Örn Norðdahl hefur bent á, hugmyndirnar sem náðu ekki í höfn – eða urðu síðar að einhverju öðru. Það skiptir líka máli, en samt greinilega ekki, menn þurfa bara að setja upp hertan hjálm og liggja þetta af sér í skotgröfunum.

Hold kjæft!

„Haltu kjafti hvað við erum heppin að eiga þetta fólk,“ skrifaði Bubbi Morthens á félagsmiðil um daginn, þar sem hann varði þá nafngreindu listamenn sem hafa orðið andlit umfjöllunar um úthald á rit- og launavelli. Þetta var dönskusletta hjá Bubba, hann var ekki með kjaft heldur sjónarhorn og jafnvel reynslu. Hann benti t.d. á að hann hefði verið tvö ár að skrifa ljóðabók sína Öskraðu gat á myrkrið, og þótt hún hefði farið í metsölu væru sölulaunin ekki í neinu samræmi við vinnuna – þess vegna hefði hann fullan skilning á listamannalaunum.

Eins og við manninn mælt er umræðuhalinn við færslu Bubba orðinn lengri en meðal ljóðabók, ígrundunin á hinn bóginn ekki – þannig að maður getur ekki að sér gert að spyrja: Myndum við í alvörunni vilja að skrifandi fólk fengi borgað per orð?

Kúptir og hertir hjálmar fást í öllum betri bretta- og hjólaverslunum fyrir þá sem vilja dvelja í stríðinu.