21.01.2016 - 15:20.Arndis Björk Ásgeirsdóttir.Sinfóníukvöld: Á leið í tónleikasal
Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld, sem sendir eru beint úr Eldborg á Rás 1 kl. 19.27, leikur hinn ungi bandaríski fiðluleikari Esther Yoo einleik í Fiðlukonserti Jeans Sibeliusar. Yoo vakti athygli tónlistarheimsins árið 2010 þegar hún varð yngst til þess að hreppa verðlaun í Sibeliusar-fiðlukeppninni, aðeins 16 ára gömul. Að auki hljóma á tónleikunum Þrjú óhlutræn málverk eftir Jón Leifs og Sinfónía nr. 1 eftir Gustav Mahler. Hljómsveitarstjóri er Osmo Vänskä.

Í þættinum Á leið í tónleikasal sem hefst kl. 19.00 ræðir Arndís Björk Ásgeirsdóttir við hinn unga einleikara og einnig við Sigrúnu Eðvaldsdóttur sem lenti í þriðja sæti í sömu keppni árið 1990 og var á síðasta ári fenginn til að dæma í keppninni sem haldin er á fimm ára fresti.