Lýstu stuðningi við hryðjuverkahópa

08.01.2016 - 04:01
epa04538195 The logo of the Federal Bureau of Investigation (FBI) at the J. Edgar Hoover FBI Building in Washington DC, USA, 22 December 2014.  EPA/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA  -  EPA
Tveir karlmenn voru handteknir í Bandaríkjunum í nótt, annar í Kaliforníuríki og hinn í Texas. Þeir voru báðir handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga.

Mennirnir eru báðir frá Palestínu en fæddir í Írak. Annar þeirra kom til Bandaríkjanna sem flóttamaður í nóvember 2009 en hinn árið 2012. Hvorugum þeirra er gefið að sök að hafa ætlað að fremja hryðjuverk, en báðir voru þeir stuðningsmenn hryðjuverkasamtaka. Að sögn fréttastofu Reuters er annar þeirra sakaður um að hafa veitt vígasveitum íslamska ríkisins aðstoð að einhverju tagi, og að hafa logið til um tengsl sín við samtökin þegar hann sótti um bandarískan ríkisborgararétt.

Hinn maðurinn laug til um ferðir sínar ári eftir að hann kom til Bandaríkjanna. Hann sagði þá stjórnvöldum að hann hafi heimsótt fjölskyldu sína til Tyrklands, en hann hafði þá farið til Sýrlands. Hann hefur margsinnis lýst yfir stuðningi sínum við hryðjuverkahópa á samfélagsmiðlum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV