Lýsir bylnum sem kjarnorkustormi

08.09.2017 - 13:06
epa06190980 A young man walks along the beach covered with debris carried by strong winds in Cap Haitian, Haiti, 07 September 2017. Category 5 Hurricane Irma with heavy rains and strong winds is causing flooding and roadblocks.  EPA-EFE/JEAN MARC HERVE
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Erlend ríki senda nú neyðarhjálp til eyja í Karíbahafi sem hafa orðið illa úti í fellibylnum Irmu. Eyðileggingin er mikil og að minnsta kosti fjórtán hafa farist. Bylurinn er nú við Bahamaeyjar og vindhraðinn 75 metrar á sekúndu. Í Bandaríkjunum hefur nær einni milljón íbúa verði gert að rýma heimili sín og forða sér frá hættusvæðum.

Viðvörun hefur verið gefin út fyrir Suður-Flórída þar sem fellibylurinn ógnar stórborginni Miami þar sem búa tvær og hálf milljón manna. Áhrif stormsins verða um allan Flórídaskaga þegar hann fer yfir með styrk fjórða stigs fellibyls. Yfirvöld hvetja íbúa til að forða sér án tafar. Philip Levine, borgarstjóri Miami Beach, segir að fólk verði að forða sér, hættan sé mikil, bylurinn sé sérlega hættulegur fellibylur sem hann kalli kjarnorkustorm. Hann skori á íbúa og ferðmenna að forða sér því ástandið sé mjög alvarlegt.

Rauði krossinn segir að hamfarasvæðið kunni nú að ná til þéttbýlli svæða þar sem allt að 26 milljónir manna búa.

Um 50 þúsund ferðamenn hafa forðað sér frá Kúbu og ferðamannastaðir á norðanverðri eynni hafa verið rýmdir. 

Bretar senda í dag neyðarhjálp til Bresku Jómfrúaeyja sem urðu illa úti. Tvær flutningavélar breska hersins halda í dag hlaðnar föngum til neyðaraðstoðar, til hamfarasvæðanna, þá eru og tvö bresk herskip væntanleg þangað með tjöld og tæki til þess að hreinsa mengað drykkjarvatn.

Liðsauki hermanna og lögreglu hefur verið sendur til  eyjarinnar St. Martin þar sem alvarlegt ástand hefur skapast vegna gripdeilda þar sem 95 allra húsa á eynni skemmdust eða eyðilögðust í fellibylnum. Heilbrigðisyfirvöld vara við hættu á farsóttum á hamfarasvæðinu vegna mengaðs drykkjarvatns.

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV