Lyf gegn flogum og geðhvörfum veldur vansköpun

20.04.2017 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lyf sem gefin voru barnshafandi konum við flogaveiki og geðhvörfum ollu því að rúmlega fjögur þúsund börn í Frakklandi fæddust vansköpuð. Þetta eru niðurstöður nýrrar franskrar könnunar.

Niðurstöðurnar benda til þess að mæður sem fengu ávísað lyfinu Valpróat við flogum og geðhvörfum hafi verið allt að fjórum sinnum líklegri til að fæða vansköpuð börn. Lyfið var fyrst sett á markað í Frakklandi fyrir sléttum 50 árum, árið 1967, og er ávísað enn þann dag í dag víða um heim. Læknum í Frakklandi er ráðið að ávísa lyfinu ekki til ungra stúlkna eða barnshafandi kvenna. Hættan á fæðingargalla ef lyfsins er neytt á meðgöngu hefur verið þekkt í áraraðir, en þessi nýja rannsókn bendir til þess að lyfið sé mun skaðlegra og hættulegra en áður var talið.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að á milli 2150 og 4100 börn hafi fæðst vansköpuð í Frakklandi vegna notkunar Valpróats. Þá bendir rannsóknin einnig til þess að auknar líkur séu á einhverfu og þroskahömlun sé lyfsins neytt á meðgöngu.

Allir heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi fengu bréf í árslok 2014 þar sem varað var við Valpróati og hættu á þroskatruflunum og fæðingargöllum hjá börnum sem útsett væru fyrir Valpróati á meðgöngu. Þar var hættan þó sögð miklu minni en niðurstöður hinnar nýju rannsóknar benda til.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV