LSH mátti ekki afhenda gögn í erfðaskrár-máli

14.01.2016 - 00:06
Landspítalinn við Hringbraut.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Landspítali fór í bága við kröfur um upplýsingaöryggi þegar sérfræðingur í klínískri taugasálfræði afhenti lögmanni afrit af spurningalista þar sem kona svaraði spurningum um vitræna getu móðursystur sinnar. Þetta er niðurstaða Persónuverndar eftir kvörtun frá lögmanni þeirra beggja. Lögmaðurinn sem fékk gögnin sá um mál annars ættingja sem vildi láta ógilda erfðaskrá móðursysturinnar.

Héraðsdómur hafði hafnað kröfu ættingjans um ógildingu en hann áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar. Í framhaldinu óskaði lögmaður hans eftir því við sérfræðinginn að hann fengi umræddan spurningalista og svör. 

Landspítali segir í svari við fyrirspurn Persónuverndar að sérfræðingurinn hafi fyrir héraðsdómi verið spurður út í þennan spurningalista og svörin sem á honum voru að finna.

Spítalinn segir að sérfræðingurinn hafi „ einungis svarað þeim spurningum sem dómari heimilaði honum að svara og hafi hann meðal annars lesið upp svör við umræddum spurningalista með leyfi dómara.“ Og þannig hafi dómarinn aflétt þagnarskyldu.

Spítalinn taldi enn fremur nauðsynlegt að leggja umrædd gögn fyrir Hæstarétt. Þannig gæti rétturinn staðfest að rétt væri haft eftir sérfræðingnum og að upplýsingarnar væru réttar og í samræmi við frumgögn.

Landspítalinn tekur þó fram að framkvæmdastjóri lækninga hafi ekki vitað um þessa miðlun og að hún hafi ekki verið í samræmi við leiðbeiningar spítalans um afhendingu slíkra gagna. Farið hafi verið yfir málið með sérfræðingnum.

Lögmaður móðursysturinnar og konunnar benti á í athugasemd sinni til Persónuverndar að það tíðkist hjá íslenskum dómstólum að leggja endurrit aðalmeðferðar héraðsdómsmála fyrir Hæstarétt í áfrýjunarmálum. „Afhending frumgagnanna var því ekki nauðsynleg „svo rétturinn gæti staðfest að rétt hefði verið haft eftir vitninu fyrir dómi“ eins og fram kemur í bréfi LSH,“ segir lögmaðurinn.

Þá bendir hann á að Hæstiréttur hefði sjálfur getað kallað eftir gögnunum ef dómurinn hefði talið að upplýsingarnar sem sérfræðingurinn gaf fyrir dómi væru ekki réttar.

Persónuvernd tekur undir þetta í úrskurði sínum og kemst því að þeirri niðurstöðu að afhending Landspítalans á svörum konunnar um vitræna getu móðursystur sinnar hafi verið óheimil og farið í bága við kröfur um upplýsingaöryggi.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV