Löng eftirför á ofsahraða endaði með árekstri

20.05.2017 - 00:53
Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögregla handtók nú um klukkan hálfeitt ökumann sem hafði verið veitt eftirför alla leið frá Steingrímsstöð í Soginu í Árnessýslu að Kjósarskarðsvegi rétt ofan við vegamótin inn á Hvalfjarðarveg, samtals rúmlega 50 kílómetra vegalengd. Að sögn Guðmundar Hjörvars Jónssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu, er maðurinn á þrítugsaldri og ók jeppa sínum þegar mest lét á um 140 kílómetra hraða.

Hann sinnti engum stöðvunarmerkjum og eftirförinni lauk með árekstri jeppans og lögreglubíls. Guðmundur segir að enginn hafi slasast.

Tveir lögreglubílar frá lögreglunni á Selfossi veittu manninum eftirför og þá voru þrír lögreglubílar, eitt mótorhjól, sérsveitarbíll og sjúkrabíll sendir til móts við hann úr Reykjavík. Ökumaðurinn var handtekinn en var enn á vettvangi þegar fréttastofa ræddi við Guðmund. Til rannsóknar er hvort maðurinn var undir áhrifum við aksturinn.

Vegalengdin sem maður ók undan lögregla var rúmir 50 kílómetrar. Sjá má leiðina á kortinu hér að neðan.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV