Lokun sjúkrahótels legið í loftinu

23.01.2016 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: ja.is 360
Framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans segir það hafa legið í loftinu að samstarfi við sjúkrahótelið í Ármúla lyki, ýmislegt hafi gengið á í samstarfinu. Reynslan sýni að ekki gangi að reka ferðamannahótel og sjúkrahótel saman.

 

Heilsumiðstöðin sem rekur sjúkrahótelið í Ármúla í Reykjavík sagði í gær upp samningi sínum við Sjúkratryggingar Íslands um gistingu og hótelþjónustu. Í uppsagnarbréfinu segir að hótelið hafi orðið að bitbeini milli opinberra aðila. 

„Það hefur náttúrulega ýmislegt gengið á í þessu samstarfi eins og fólk veit og það hefur svifið yfir vötnunum að þessu samstarfi myndi ljúka. En við höfum verið að bíða eftir skýrlu ríkisendurskoðunar og ætluðum að skoða þetta í því ljósi“, segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans.

 

Að sögn Guðlaugar Rakelar er það skýrsla um sjúkrahótelið. Í uppsagnarbréfinu segir að í samningi Sjúkratryggingar Íslands við hótelið sé gert ráð fyrir að samið sé um hótelgistingu og fullt fæði fyrir einstaklinga sem séu færir um athafnir dagslegs lífs. Landspítalinn virðist hins vegar líta öðruvísi á og fólk sem þurfi mun meiri þjónustu eigi að fá þar inni.

„Þá er það náttúrulega ekki sjúkrahótel og sú þjónusta sem ætlast var til í upphafi, að þetta væri sjúkrahótel og fólk þyrfti þá aðstoð af einhverju tagi á sjúkrahótelinu en væru ekki eins og venjulegir hótelgestir. Þannig að það er eðlismunur á því og það er eðlismunur á ferðahóteli annars vegar og sjúkrahóteli hins vegar.“

Segir Guðlaug og bætir við að reynslan sýni að ekki gangi að reka þessar tvær tegundir af hótelþjónustu saman. Í uppsagnarbréfinu er einnig kvartað undan gagnrýni Landspítalans í fjölmiðlum á hótelið. Sú gagnrýni hafi ekki einungis dregið úr trúverðugleika starfseminnar út á við og fælt þá frá sem þurfa á þjónustunni að halda heldur hafi hún líka verið meiðandi og særandi gagnvart starfsmönnum. Guðlaug Rakel segir að ætlast hafi verið til ákveðinnar þjónustu í upphafi og það hafi ekki gengið eftir. 150 milljónir króna á ári hafi verið færðar frá Landspítalanum til Sjúkratrygginga vegna þessa og hún vonist til að þeir peningar verði nýttir í þá þjónustu sem ætlast var til. Uppsagnarfrestur samningsins er þrír mánuðir og verður síðasta gistinóttin því, að öllu óbreyttu, aðfararnótt 30. apríl. Guðlaug Rakel segir að skoðað verði hvernig tekið verður á því.

„Við þurfum bara að skoða það en reynslan hefur sýnt að í ljósi þessa nýja samnings sem gerður var á síðasta ári þá hafa færri og færri sjúklingar getað nýtt sér þetta úrræði af þessari ástæðu sem þú sagðir áðan þannig að ég geri ekki ráð fyrir að þetta hafi mikil áhrif á starfsemi Landspítala“, segir Guðlaug Rakel.

Fram hefur komið í fréttum að fólk sem hæft er til útskriftar af Landspítalanum getur ekki útskrifast því það getur ekki farið heim og kemur þar með í veg fyrir að fólk sem þarf á sjúkrahúsmeðferð að halda komist að. Guðlaug Rakel segir að vel geti verið að lokun sjúkrahótelsins bitni á einhverri starfsemi spítalans, en það verði skoðað betur.

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV