Lögreglumenn tregir til að gæta Beyoncé

epa05149059 Beyonce (R) performs during the halftime show of the NFL's Super Bowl 50 between the AFC Champion Denver Broncos and the NFC Champion Carolina Panthers at Levi's Stadium in Santa Clara, California, USA, 07 February 2016.  EPA/TANNEN
 Mynd: EPA
Engir lögreglumenn í Tampa í Flórída virðast vilja taka að sér að sinna öryggisgæslu á tónleikum ofurstjörnunnar Beyoncé Knowles og er það talið tengjast dansatriði hennar í hálfleik Super Bowl leiksins á dögunum. Þar flutti hún lagið Formation ásamt fríðu föruneyti og vísaði til réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum.

Hún var hins vegar gagnrýnd fyrir það sem sumir telja vera boðskap fjandsamlegan lögreglunni en lögregluofbeldi er eitt stærsta hagsmunamál þeldökkra Bandaríkjamanna nú jafnt sem áður. Öryggisgæslu á stórtónleikum vestanhafs er yfirleitt sinnt af lögreglumönnum utan vinnutíma sem fá aukapening fyrir vikið.

Hins vegar hefur ekki einn einasti lögreglumaður boðið sig fram til að sinna gæslunni á næstu tónleikum Beyoncé í Tampa þó að auglýsingar, þar sem óskað er eftir lögreglumönnum, hafi hangið uppi á lögreglustöðvum í nokkurn tíma. Talsmaður lögreglunnar í Tampa segir að enn sé nægur tími til stefnu, tónleikarnir verði ekki haldnir fyrr en í lok apríl. Ef enginn lögreglumaður hafi gefið sig fram fyrir þann tíma verði einhverjir þeirra skikkaðir í starfið.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV