Lögreglumenn leita til Umboðsmanns Alþingis

12.01.2016 - 12:27
Mynd með færslu
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.  Mynd: RÚV
Landssamband lögreglumanna hefur sent Umboðsmanni Alþingis bréf þar sem þess er óskað að umboðsmaður geri frumkvæðisathugun á því hvernig staðið var að stöðuveitingum innan lögreglunnar.

Sambandið fullyrðir að mörg dæmi séu um að lögreglumenn hafi verið skipaðir, eða fluttir í lausar stöður án auglýsinga. 

Bréfið var sent Umboðsmanni Alþingis í gær en fréttastofa hefur það undir höndum. Þar segir að sambandinu hafi borist síendurteknar umkvartanir félagsmanna á undanförnum misserum vegna stöðuveitinga án auglýsinga hjá lögreglu.

Í bréfinu segir enn fremur að svo virðist sem lögreglustjórar landsins hafi fengið þær upplýsingar frá mannauðsskrifstofu fjármálaráðuneytisins að þeir geti, á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ráðið, sett, skipað eða flutt lögreglumenn til starfa í hin ýmsu starfsstig lögreglu og á milli embætta án undangenginna auglýsinga.

Vilja frumkvæðisathugun frá umboðsmanni 

Þá segir í niðurlagi bréfsins frá Landssambandi lögreglumanna til Umboðsmanns Alþingis: „Í ljósi fjölda þeirra umkvartana, sem sambandinu hafa borist undanfarna mánuði, sem og þeirrar staðreyndar að um fleiri en eitt lögregluumdæmi og stöður er að ræða, telur landssambandið einsýnt að eðlilegast sé að fara þess á leit við embætti yðar að það hlutist til um frumkvæðisathugun á framkvæmd lögreglustjóranna á ráðningum, setningum og skipunum til starfa í lögreglu og einnig hvernig staðið er að auglýsingaskyldu embættanna vegna lausra embætta lögreglumanna".

Undir bréfið til umboðsmanns ritar Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, en hann gat ekki veitt fréttastofu viðtal vegna málsins fyrir hádegisfréttir. Ekki kemur fram í bréfinu í hvaða lögregluumdæmum stöður hafi verið veittar með þessum hætti.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV