Lögreglumaður varaði grunaðan mann við húsleit

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Fulltrúi við fíkniefnadeild lögreglunnar, sem vikið var úr starfi á dögunum, er talinn hafa spillt húsleit er hann varaði brotamann við henni, og gerði honum þannig kleift að koma fíkniefnum undan áður en leitin hófst. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir að blaðið hafi heimildir fyrir því að einstaklingur, sem talinn  er tengjast fíkniefnaheiminum, hafi viðurkennt í yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara að viðkomandi lögreglufulltrúi hafi minnst einu sinni varað hann við yfirvofandi húsleit.

Samkvæmt Fréttablaðinu er óljóst hvort fé skipti um hendur vegna þessa, en talið að lögreglumaðurinn hafi fengið upplýsingar um umsvif annarra manna í fíkniefnaheiminum í skiptum fyrir viðvörunina. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, segir í samtali við blaðamann að rannsókn málsins gangi vel, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um efnisatriði fréttarinnar.