Lögreglumaður skotinn til bana í París

20.04.2017 - 19:40
In this image made from video, police attend the scene after an incident on the Champs-Elysees with Arc de Triomphe in background in Paris, Thursday April 20, 2017.  French media are reporting that two police officers were shot Thursday on the famed
 Mynd: AP
Lögreglumaður var skotinn til bana og félagi hans særður á Champs Elysees breiðgötunni í París í kvöld. Að sögn franska innanríkisráðuneytisins var árásarmaðurinn felldur.

Fjöldi fólks var á götunni eins og jafnan á flestum stundum sólarhringsins þegar árásin var gerð. Henni var lokað þegar í stað. Tugir lögreglubíla voru sendir á staðinn.

Fyrir tveimur dögum handtók franska lögreglan tvo menn í Marseille í suðurhluta Frakklands. Talið er að þeir hafi verið að undirbúa hryðjuverk í landinu í aðdraganda forsetakosninganna á sunnudaginn kemur. Í fórum þeirra fundust vopn og sprengiefni.

Frakkland hefur verið á hæsta viðbúnaðarstigi vegna yfirvofandi hryðjuverka frá því að slíkar árásir voru gerðar árið 2015. Yfir 230 hafa látið lífið í hryðjuverkaárásum í landinu síðan. Liður í hryðjuverkavörnum er að vopnaðir lögreglumenn eru víðs vegar um borgina, einkum á stöðum sem ferðamenn sækja, svo sem á Champs Elysees breiðgötunni.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV