Lögreglu hafi skort hlutlægni við rannsóknina

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar Møllers Olsens, krafðist þess í málsvörn sinni fyrir Héraðsdómi Reykjaness síðdegis að Thomas yrði sýknaður af báðum ákæruliðum en ella dæmdur til vægustu refsingar. Lögreglu skorti hlutlægni við öflun sönnunargagna og rannsakaði ekki þætti sem hefðu getað beint grunsemdum að öðrum en Thomasi, sagði verjandinn.

Hann sagði að þó Thomas vildi ekkert tjá sig um ferðir sínar milli klukkan sjö og ellefu laugardaginn 14. janúar tengist það á engan hátt hvarfinu á Birnu Brjánsdóttur.

Rannsókn hafi aðallega beinst að Thomasi

Páll gagnrýndi lögregluna fyrir hvernig staðið var að rannsókn málsins. Hann sagði að enginn kraftur hefði farið í að rannsaka þátt annarra. Strax í fyrstu skýrslutökum hafi grunurinn aðallega beinst að Thomasi. Páll sagði að handtakan hefði verið Thomasi þungbær. Hann hefði verið handtekinn af þungvopnaðri lögreglu og fluttur nauðugur til Íslands. Hann hafi strax í fyrstu skýrslutöku sagst lítið muna frá nóttinni þegar Birna hvarf og ekkert svarað spurningum lögreglu frá 20. janúar.

Handtakan á Thomasi var ólögleg, sagði Páll Rúnar. Hann sagði að með henni hefði verið brotið á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. „Íslensk löggæsluyfirvöld höfðu engan rétt á því að taka yfir Polar Nanoq og framkvæma þar handtöku,“ sagði Páll og vísaði til þess að ekkert skriflegt leyfi frá fánaríki skipsins hefði legið fyrir. Páll sagði að handtakan um borð í Polar Nanoq ætti að verða til þess að ógilda málið, og vísaði þar sérstaklega til fíkniefnahluta ákærunnar sem Thomas hefur játað á sig.

Útilokað að Thomas hafi farið leiðina sem lögregla lýsti

Gagnrýnisvert er að lögregla hafi ekki rannsakað aðra umferð um Suðurstrandarveg, sagði Páll. Hann vísaði til þess að lögregla telur að þar hafi Thomas farið um með Birnu áður en hann hafi varpað henni í sjó eða vatn. Páll sagði að aðrir möguleikar hefðu ekki verið rannsakaðir nægilega vel til að útiloka þá. Auk þess hefði ekki verið sýnt fram á hvernig útlendingurinn Thomas þekkti til svæðsins. Einnig hefðu áverkar á hendi Nikolajs Olsens ekki verið rannsakaðir og lögreglan reyndar viðurkennt við skýrslugjöf fyrir dómi að slíkt hefði átt að gera.

Páll sagði að grundvallarforsendur ákæruvaldsins væru rangar og að skort hefði hlutlægni við öflun sönnunargagna. Það sem sé ómögulegt hafi ekki verið útilokað. Til dæmis hafi ekki verið litið til þess að útilokað sé að Thomas hafi farið alla leið úr Hafnarfirði að Vogsósum á bílnum. Þar stangist á vegalengdir vegakerfisins og útreikningar lögreglu á akstri bílsins.

Thomas var ölvaður þegar hann sótti Nikolaj Olsen, félaga sinn, niður í miðbæ Reykjavíkur og man því lítið eftir kvöldinu, sagði Páll Rúnar. „Minningar hans eru ekki efnismiklar en þær eru studdar gögnum.“

Gat ekki ráðist á Birnu í aftursætinu

Páll sagði að það gengi ekki upp að Thomas hafi ráðist á Birnu í aftursæti rauða Kia Rio bílsins. Það væri vegna þess að ekkert blóð hefði fundist í ökumannssætinu, á gírstöng eða stýri eins og hefði átt að vera ef árásarmaðurinn hefði verið með blóðugar hendur eftir atlöguna. Þá sagði hann útilokað að Thomas hafi verið undir stýri á einni myndinni sem tekin var úr eftirlitsmyndavél við golfskálann í Kópavogi. Þetta væri atriði sem Thomas teldi að hefði ekki verið rannsakað nægjanlega.

Páll efaðist um að Nikolaj hefði verið jafn ölvaður um nóttina og ráða hefur mátt af skýrslugjöf vitna fyrir dómi. Hann vísaði til þess að Nikolaj hefði hringt fjölda símtala í systur sína, þáverandi unnustu og starfsmann English Pub eftir að Thomas kvaddi hann. Þá hefði vinur Nikolajs gefið skýrslu hjá lögreglu án þess að tilgreina að Nikolaj hefði hringt í sig. „En nú finnst þessi maður ekki,“ sagði Páll og vísaði til þess að ekki náðist í manninn í síma í morgun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Skynsamlegur vafi á sekt Thomasar

Lögregla ákvað snemma í rannsókninni að Thomas væri hinn seki og rannsóknarreglan var ekki uppfyllt með fullnægjandi hætti, sagði Páll Rúnar. „Um leið og fallist er á ágalla í rannsókn er uppi skynsamlegur vafi í málinu og því ber að sýkna.“ Páll Rúnar sagði ekki hægt að halda því fram að Thomas hafi komið óheiðarlega fram. Thomas hafi til dæmis verið heiðarlegur um fíkniefnin sem hann er ákærður fyrir að smygla. Thomas hafi þjáðst af minnisleysi við yfirheyrslur vegna ofdrykkju. Thomas hefði verið settur undir mikið álag eins og dómararnir myndu sjá ef þeir horfðu á upptökunar. Þrátt fyrir þetta hefði Thomas ekki búið til neina sögu við yfirheyrslur hjá lögreglu. Páll sagði að sagan um að stelpurnar í bílnum væru tvær, væri komin frá Nikolaj sem hefði sagt Thomasi hana.

Páll sagði ekki hægt að dæma Thomas fyrir fíkniefnasmygl. Það hafi ekki verið hann sem flutti fíkniefnin til Íslands heldur hafi þau borist í íslenska lögsögu vegna aðgerða lögreglunnar.