Lögreglan lokaði leyfislausum gististað

13.09.2017 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Lögreglan á Suðurlandi þurfti að vísa tveimur næturgestum út af gististað á Suðurströndinni þar sem staðurinn hafði hvorki tilskilin leyfi né hafði sótt um þau. Sá sem rak gististaðinn var ekki á staðnum þegar lögreglan kom á vettvang heldur var hringt í símanúmer sem hann hafði gefið upp á auglýsingatöflu hússins og hann upplýstur um lokunina.

Sá og hinn sami hringdi síðan aftur skömmu seinna og sagðist þá ætla að tilkynna gististaðinn sem heimagistingu og að hann myndi flytja lögheimili sitt þangað.

Lögreglan á Suðurlandi segir á Facebook-síðu sinni að slíkt myndi aldrei ganga upp.  Samkvæmt reglum um heimagistingu telst staður, sem leigir út fleiri en fimm herbergi eða rými fyrir fleiri en tíu, gististaður í flokki II. „Umræddur gististaður er með mun fleiri rými en þarna eru tilgreind og því ekki um það að ræða að fella reksturinn undir heimagistingu.“

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV