Lögreglan á að nota svartan tússpenna

10.01.2016 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Lögreglan í Reykjavík á framvegis að nota svartan olíutússpenna, eða aðra jafn örugga aðferð, til að afmá viðkvæmar persónuupplýsingar áður en gögn úr málaskrá lögreglunnar eru afhent öðrum. Þetta er meðal öryggisráðstafana í drögum að nýjum verklagsreglum sem lögregluembættið setur sér að kröfu Persónuverndar, eftir að viðkvæmum upplýsingum var miðlað til fjölmiðla í skýrslu lögreglunnar um búsáhaldabyltinguna.

Hægt að lesa öll nöfnin

Lögreglan afhenti Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og DV prentað eintak af skýrslunni í október 2014. Samdægurs kom í ljós að hægt var að lesa í gegnum yfirstrikanir nöfn fjölda almennra borgara og lögreglumanna. Einnig var hægt að sjá nöfnin í PDF-skjali sem var dreift um netið. Persónuvernd komst í fyrra að þeirri niðurstöðu að lögreglan hefði ekki farið að lögum þegar skýrslan var afhent og fór fram á að settar yrðu verklagsreglur um slíkt.

Strika yfir og ljósrita svo tvisvar

Í nýju reglunum eru ýmis ákvæði um hvernig á að fara með beiðni um gögn úr málaskrárkerfi lögreglunnar. Þar eru einnig allnákvæmar leiðbeiningar um hvað á að gera áður en upplýsingarnar eru afhentar. Viðkvæmar persónuupplýsingar á að afmá með svörtum olíutússpenna eða með jafn tryggum hætti. Þegar því er lokið á að ljósrita yfirstrikaða eintakið einu sinni, en að því búnu á að ljósrita ljósritaða eintakið á ný. Að lokum á að ganga úr skugga um að ekki sé hægt að greina það sem strikað var yfir.

Persónuvernd hefur lagt blessun sína yfir þessa aðferð. Samkvæmt reglunum er alltaf óheimilt að afhenda upplýsingar eða gögn í rafrænu formi. Persónuvernd gerir reyndar athugasemd við það, og segir að ef farið er að þessum öryggisráðstöfunum fáist ekki séð að gera þurfi greinarmun á því hvort gögn eru afhent rafrænt eða á pappír.

Leiðrétt: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var misritað á einum stað að Persónuvernd hefði afhent fjölmiðlum skýrsluna. Í svari lögreglu til fréttastofu kemur einnig fram að reglurnar hafi ekki tekið gildi, enn sé verið að vinna með drög og ábendingar Persónuverndar. Orðalagi í inngangi fréttarinnar hefur því verið breytt.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV