Lögregla varar við því að skjóta á Irmu

10.09.2017 - 05:36
epa06193528 A screengrab taken from a handout video made available by NASA on 09 September 2017 shows hurricanes Katia (L), Irma (C), and Jose (R) over the Carribbean on 08 September 2017. Hurricanes Jose and Katia are expected to follow hurricane Irma
Fellibylurinn Irma (t.v.; José til hægri) verður ekki stöðvuð með byssuskotum - en skotin sem beint er að storminum geta hæglega banað einhverjum á jörðu niðri.  Mynd: EPA-EFE  -  NASA
Lögreglustjórinn í Pasco-sýslu í Flórída varar eindregið við því að fólk reyni að hindra för fellibylsins Irmu með því að skjóta inn í storminn. Ástæða þess að lögreglustjórinn sér sig knúinn til að gefa út slíka viðvörun er herhvöt Flórídabúans Ryons Edwards, sem stofnaði til viðburðarins „Skjótum á fellibylinn Irmu" á Facebook. 25.000 manns höfðu boðað þátttöku í þeim viðburði klukkan hálf fimm í nótt og 53.000 lýst áhuga á að taka þátt.

Á twittersíðu lögreglustjóraembættisins í Pasco er birt skýringarmynd af því sem líklega gerist þegar skotið er inn í fellibyl og bent á, að skothríðin muni engin áhrif hafa á Irmu, hún muni æða áfram eins og ekkert hafi í skorist - en aftur á móti geti skothríðin haft mjög hættulegar afleiðingar fyrir fólk á jörðu niðri. Kúlurnar muni rata aftur til jarðar og geti hæglega orðið fólki að fjörtjóni.

Edwards, sem er 22 ára gamall, stofnaði til viðburðarins í bríaríi, að eigin sögn. Honum leiddist, og tók upp á því að skjóta í átt að óveðursskýjunum sem hrönnuðust upp við sjónarrönd til að stytta sér stundir. Í samtali við tíðindamann breska ríkisútvarpsins, BBC, sagði hann að einhver blanda af stressi og leiðindum hafi svo rekið hann til þess að stofna til þessa viðburðar á Facebook. Viðbrögðin hafi hins vegar komið honum algjörlega í opna skjöldu og viðburðurinn eiginlega kominn úr böndunum.

Hugmynd Edwards hefur farið víða um veraldarvefinn og fjölmargir gripið hana á lofti. Margir telja sig meira að segja vita hvernig hægt sé að skjóta á Irmu án þess að eiga á hættu að kúlan snúi aftur sömu leið og drepi viðkomandi - málið sé einfaldlega að „miða rétt.“ Aðrir hafa stungið upp á að beina eldvörpum að Irmu, til að hræða hana í burtu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV