Lögregla skaut ástralska konu í Minneapolis

17.07.2017 - 23:34
epa06093653 Flowers and messages were left at a makeshift memorial near the alley were Justine Ruszczyk was shot and killed by police after Ruszczyk called police to report a disturbance, in Minneapolis, MN., USA, 17 July 2017.  EPA/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA
Áströlsk kona var skotin til bana af lögreglunni í Minneapolis í Bandaríkjunum um helgina. Hún hafði hringt í neyðarlínuna og tilkynnt um lögbrot í húsasundi nærri heimili sínu. Þegar lögregla kom á staðinn gekk konan sjálf út á náttfötum til að ræða við lögregluþjónana sem brugðust við með því að skjóta á hana.

Engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna lögreglan sá sig knúna til að skjóta á konuna. Lögregla hefur lítið viljað tjá sig um málið og vísað til þess að rannsókn á atvikinu standi nú yfir. Samkvæmt frásögn vitna stóð konan á náttfötunum við lögreglubílinn og ræddi við lögreglufulltrúa þegar annar þeirra skaut hana út um gluggann.

Einhverra hluta vegna var slökkt á líkamsmyndavélum sem lögreglufulltrúar í Minneapolis eru skikkaðir til að bera við störf sín. Atvikið náðist heldur ekki á myndband á upptökuvél sem var í lögreglubílnum. Lögreglufulltrúunum sem fóru í útkallið hefur verið vísað tímabundið frá störfum.

Atvikið hefur vakið hörð viðbrögð, bæði í Ástralíu sem og í Bandaríkjunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem almennir borgarar falla fyrir hendi lögreglu í Bandaríkjunum. Á vef Washington Post kemur fram að það sem af er þessu ári hafi yfir 500 manns látið lífið eftir skotárásir lögreglu í landinu. 

Frá árinu 2016 hafa lögreglufulltrúar í Minneapolis verið látnir bera líkamsmyndavélar við störf sín. Fyrirkomulagið var tekið upp eftir að lögreglan skaut svartan ökumann á umferðarljósum í Minneapolis. Lögreglufulltrúinn hélt því fram að ökumaðurinn hefði virkað ógnandi og litið út fyrir að ætla að teygja sig í skotvopn. Fulltrúinn brást þá við með því að skjóta mörgum skotum inn í bílinn.

Ástralska konan sem lést um helgina hét Justine Damond og bjó í Minneapolis ásamt börnum sínum og maka. Parið hafði ákveðið að gifta sig í næsta mánuði. Stjúpsonur konunnar birti myndband á Facebook um helgina þar sem fram kemur að hún hefði sjálf hringt í lögregluna. „Móðir mín er látinn vegna þess að lögregluþjónn skaut hana. Ég veit ekki af hverju og ég krefst þess að fá svör,“ segir hann.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV