Lögmaður lögreglumannsins fær gögnin í dag

08.01.2016 - 11:43
Lögreglustöðin við Hlemm
 Mynd: RÚV
Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður fíkniefnalögreglumannsins sem sat í gæsluvarðhaldi grunaður um brot í starfi, fær gögn málsins í dag. Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu. Ómar hafði sent kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hann ætlaði að fá gögnin með dómsúrskurði og til stóð að flytja málið í gær. Ekkert varð af þeim málflutningi eftir að samkomulag náðist við embætti ríkissaksóknara um að það léti gögnin af hendi.

Lögreglumaðurinn, sem er á fimmtugsaldri, var látinn laus úr haldi í gær. Annar maður sem talinn er tengjast málinu var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær. Hann hefur hlotið dóma fyrir fíkniefnalagabrot.  

Fram kom í fréttum RÚV í gær að upptaka af símtali milli lögreglumannsins og mannsins hefði verið tilefni til handtöku lögreglumannsins. Upptakan var gerð í sumar en var afhent embætti ríkissaksóknara um miðjan desember.

Samtalið á hljóðupptökunni gefur til kynna að lögreglumaðurinn þiggi um hundrað þúsund krónur í greiðslur í skiptum fyrir trúnaðarupplýsingar. Ekkert mun vera handfast í samtalinu um að sú fjárhæð ætti að berast lögreglumanninum.

Hins vegar hefur fréttastofan heimildir fyrir því að í samtalinu upplýsi lögreglumaðurinn símavin sinn um málefni sem leynt áttu að fara. Það er að hann hafi með því brotið klárlega gegn þagnarskyldu sinni - slíkt má kalla að lekið sé upplýsingum. 

Ómar Örn, lögmaður lögreglumannsins, sagði í samtali við visir.is í gærkvöld að það hefðu verið samskipti milli þeirra en að þau hefðu ekki verið óeðlileg.

Samkvæmt heimildum fréttastofu þekkjast mennirnir tveir ágætlega  og eru gamlir kunningjar frá yngri árum - æfðu meðal annars saman íþróttir. 

Visir.is hefur fjallað ítarlega um mál annars lögreglumanns hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem ítrekað hefur verið sakaður um óeðlileg samskipti við brotamenn. Í frétt á vef Visis í hádeginu í dag kemur fram að hann hafi stýrt tálbeituaðgerð sem fór út um þúfur á Hótel Frón á Laugavegi í apríl í fyrra. Hollensk kona fékk ellefu ára fangelsi fyrir aðild að málinu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu sendi hópur lögreglumanna hjá fíkniefnadeildinni bréf til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í apríl þar sem þeir kvörtuðu undan þessum lögreglufulltrúa.  Meðal þeirra sem kvittuðu undir bréfið var lögregumaðurinn sem settur var í gæsluvarðhald.  Stundin greindi frá því í vikunni að hann hefði einnig tekið þátt í tálbeituaðgerðinni.

Fréttastofu er þó ekki kunnugt um hvort bréfið hafi verið sent fyrir eða eftir umrædda tálbeituaðgerð.  

Fréttastofa hefur sent Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, fyrirspurn um málið. Þegar þetta er skrifað hafði ekki borist svar við þeirri fyrirspurn.