Lögleysa ríkir í 23 hverfum í Svíþjóð

13.08.2017 - 13:13
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Sjö liggja sárir, þar af tveir lífshættulega, eftir fjórar árásir í Kaupmannahöfn og Malmö í gærkvöldi og nótt. Talið er að árásirnar tengist allar blóðugum gengjastríðum í borgunum.

Fjórir særðust í þremur árásum í Kaupmannahöfn í gærkvöld. 22 ára karlmaður leitaði aðhlynningar á Bispebjerg-sjúkrahúsinu á áttunda tímunum í gærkvöld, en hann hafði fengið svöðusár þegar lagt var til hans með hnífi. Seint á níunda tímanum barst lögreglu svo tilkynning um að sautján ára unglingspiltur hefði verið stunginn með hnífi við Suðurhöfnina og á tólfta tímanum var tilkynnt um skotárás á Norðurbrú þar sem tveir særðust.

Talið er að átökin séu angi af harðnandi átökum glæpagengja í borginni, skotárásin í gærkvöld var sú tuttugasta og fimmta á tveimur mánuðum. Enginn þeirra fjögurra sem ráðist var á í gærkvöld er í lífshættu og enginn hefur verið handtekinn vegna árásanna. 

Klukkan sex í morgun réðist karlmaður inn í samkomusal í Malmö í Svíþjóð og hóf þar skothríð. Um 70 manns voru í salnum, þrír ungir karlmenn særðust, þar af tveir lífshættulega.

Í nýrri skýrslu sem sænska lögreglan sendi frá sér í sumar segir að 61 svæði í Svíþjóð flokkist sem viðkvæm svæði eða áhættusvæði, þar af ríki nánast lögleysa í tuttugu og þremur hverfum. Myndin sem dregin er upp af lífinu í þessum hverfum er dökk, íbúar hafa misst alla trú á að yfirvöld geti tryggt öryggi þeirra og glæpagengi hafa tekið völdin. Lögreglan geti ekki sinnt skyldum sínum á þessum svæðum og vitni séu hrelld og þeim hótað. Lögreglan áætlar að allt að 200 glæpagengi finnist í þessum hverfum, 5.000 virkir félagar séu innan þeirra vébanda og talið er að allt að 11.000 ungmenni séu í hættu á að enda í gengjunum.

Lögreglan segist hafa gripið til aðgerða til að snúa þróuninni við á viðkvæmustu svæðunum. Fleiri lögreglumenn hafa verið settir inn í þessi hverfi, reynt er að byggja upp trúnað og tengslanet við íbúana og ráðist hefur verið til atlögu við fíkniefnaviðskipti sem víða hafa farið fram fyrir opnum tjöldum. Í skýrslunni segir að þessar aðgerðir hafi skilað árangri, æ fleiri íbúar vilji samstarf við lögregluna en ástandið sé viðkvæmt og að ekkert megi út af bera.