Lögin sem hneyksluðu

05.03.2016 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: Felix Bergsson  -  Felix
"Þetta gerist reglulega og hefur verið að gerast allt frá því að Íslendingar tóku dægurtónlist í sátt, ja eða tóku hana ekki í sátt og það er hægt að taka mýmörg dæmi" segir Jónatan Garðarsson þegar fjallað er um dægurlög sem hafa vakið hneykslan í gegnum tíðina. Ástæða umfjöllunar í Bergsson og Blöndal er auðvitað uppnámið sem varð vegna atriðis Reykjavíkurdætra hjá Gísla Marteini.

Í umfjöllun Jónatans er komið víða við. Lög eins og Vagg og velta með Erlu Þorsteins, Allt á floti með Skapta Ólafssyni og djass sem þótti auðvitað stórhættulegur fyrir ungu kynslóðina. Þá þótti stórhættulegt að syngja Stína var lítil stúlka í sveit / stækkaði óðum blómleg og feit. Síðasta orðinu, "feit" var þá breytt í "heit" sem Jónatan segir að samkvæmt öllum stöðlum ætti í raun ekki að vera neitt skárra.

Þá fjallaði hann um hljómsveitirnar Ævintýri (sjá mynd), Trúbrot og Náttúru sem gerðu þann óskunda að útsetja klassíska tónlist í poppútgáfum og Ríkisútvarpið bannaði með Jón Þórarinsson tónlistarstjóra í broddi fylkingar.

Vísnaplatan sem Gunni Þórðar gerði árið 1976 vakti líka usla. Íslenskukennarar víða um land skrifuðu bréf og kröfðust þess að þessi plata yrði aldrei spiluð í Ríkisútvarpinu enda væri þarna verið að pönkast á fallegum íslenskum ljóðum fyrir börn. Eftir því var sem betur fer ekki farið.

Að lokum fjallaði Jónatan um uppnámið sem Bubbi Morthens olli þegar hann kom fram og þótti ekki fara vel með íslenskuna.

Umfjöllunina úr Bergsson og Blöndal má alla heyra í spilaranum

Mynd með færslu
Felix Bergsson
dagskrárgerðarmaður
Bergsson og Blöndal
Þessi þáttur er í hlaðvarpi