Logi: Ekki hugsað sem deilur við Ingu

14.08.2017 - 09:34
„Það er ógeðfellt að tefla fram tveimur hópum í erfiðri aðstöðu hvorum gegn öðrum og gefa falsvon um að það að taka annan hópinn niður geti leyst vanda hins,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann hefur átt í orðaskaki við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, vegna ummæla Ingu á þá leið að það fjármagn sem fari í að aðstoða hælisleitendur á meðan umsóknir þeirra séu teknar fyrir verði frekar nýtt til að hjálpa fátækum Íslendingum.

Ummælin skrifaði Inga á Facebook en eyddi síðar færslunni. „Hún stillir því þannig upp í þeirri færslu að það eigi að taka peninga af hópi sem er í brýnni neyð og leysa vanda annars með þeim,“ sagði Logi á Facebook á föstudag. „Þessi samanburður er ekki til neins nema til að vekja tortryggni,“ sagði hann jafnframt í dag. 

Í aðsendri grein Loga á Vísi sem bar titilinn Ljótur leikur, sagði hann: „Þær raddir verða sífellt háværari í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og jafnvel hjá stjórnmálamönnum, sem fullyrða að aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur sé á kostnað þeirra Íslendinga sem eiga erfitt.“ Logi segir í dag að greinin hafi ekki verið hugsuð sem hluti af deilu við Ingu heldur yfirlýsing frá formanni Samfylkingarinnar. Inga var ekki nefnd á nafn í greininni. 

Inga segir í viðtali við DV að það sé ósatt að hún etji saman hælisleitendum og öryrkjum. „Það er einungis þannig sem þeir kjósa að túlka það sem ég segi, spurning hvaða stimpil þeir vilja setja á sjálfa sig. Fólki væri nær að snúa bökum saman um þær hugsjónir að útrýma hér fátækt en að reyna að ata okkur auri og snúa út úr málflutningi mínum.“ Hún hefur gagnrýnt að óþarfa kostnaður felist í meðferð hælismála. Þau eru sammála um að fátækt sé alvarlegt vandamál. „Við erum sammála um að það þurfi að auka jöfnuð,“ segir Logi. „En til þess þarf stærri kerfisbreytingar á okkar samfélagi.“

Tekur ábendingu Rauða krossins alvarlega

Tíu manns hefja bráðlega störf við að flýta meðferð hælisumsókna hjá Útlendingastofnun. Dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á að afgreiða umsóknir hratt. Hún segir að flestar umsóknir séu tilhæfulausar þar sem umsækjendur komi frá landi sem skilgreint er sem öruggt ríki.

„Við getum ekki afgreitt hlutina svo hratt að við stefnum þessu fólki í voða,“ sagði Logi í Morgunútvarpinu í dag. Hann varar við því að taka listann yfir örugg ríki hráan og senda fólk strax til baka. Lönd á borð við Grikkland og Ítalíu hafi tekið á sig þungar byrðar og óvíst hvort þau ráði við að taka við fólki aftur. „Viljum við senda börn aftur bara vegna þess að það stendur á lista að það sé öruggt land ef það er nokkuð öruggt að þau lendi á götunni?“ Þá segir hann að fólk frá Georgíu, sem skilgreint er sem öruggt ríki, hafi orðið fyrir pólitískum ofsóknum. Listinn yfir örugg ríki geti verið vísbending. „En það þarf að skoða hvert tilvik.“ Rauði krossinn hafi bent á þetta og það beri að taka alvarlega.