Lögbrot að skýrsla sé á ensku

18.01.2016 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er brot á lögum um íslenska tungu að hið opinbera taki við skýrslum á ensku sem unnar eru hér á landi. Þetta segir formaður Íslenskrar málnefndar sem hefur sent utanríkisráðherra bréf vegna málsins.

Fyrirtækið Reykjavik Economics vann skýrslu fyrir samráðshóp stjórnvalda og hagsmunasamtaka á Rússlandsmarkaði um áhrif viðskiptaþvingana Rússa á íslenskt atvinnulíf.  Skýrslan var afhent á ensku.

Guðrún Kvaran er formaður Íslenskrar málnefndar.

„Það sem okkur blöskrar við að opinberir aðilar taki við skýrlsum á ensku er að það er hreinlega brot á lögum um íslenska tungu Þau voru samþykkt 2011 og þar kemur fram að íslenska sé mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda bæði ríkis og sveitarfélaga og þar af leiðandi á ekki að taka við skýrslum á ensku hvorki að skrifa skýrslur á ensku nema þá til að senda til útlanda en það sem er ætlað hér innan lands á að vera á íslensku.“

 Í mars á síðasta ári gerði nefndin alvarlegar athugasemdir við að formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi skilað forsætisráðherra skýrslu á ensku en hún fjallaði um endurbætur á íslenska peningakerfinu.

„Það var eins með hana mér skilst að það hafi verið svona klippa og líma dæmi, ýmsir textar hafa verið á ensku og ekki fundist ástæða til að þýða þá en þetta er bara hreinlega brot á lögum.“

Íslensk málnefnd hefur nú sent Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra bréf vegna nýju skýrslunnar þar sem kemur fram að það sé ótækt að stjórnvöld taki við skýrslum á ensku.

„Það eru aldrei viðurlög við neinu svona. Það eina sem Íslensk málnefnd getur gert það er að senda athugasemdir. Við getum ekki kært neinn. Við getum bara sent bréf og bent á að þarna hafi ekki verið rétt staðið að málum. Og það er stór þýðingardeild hjá utanríkisráðuneytinu og hún ætti nú að geta þýtt eina svona litla skýrslu.“

Aths.: Fréttin hefur verið uppfærð. Skýrslan var unnin að beiðni samráðshóps stjórnvalda og hagsmunasamtaka á Rússlandsmarkaði, en ekki fyrir utanríkisráðuneytið eins og hermt var í upprunalegri frétt.

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV