Loðnukvótinn verði ekki aukinn

19.02.2016 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kollbeinsson
Hafrannsóknastofnun leggur til að ekki verði aukið við aflamark loðnu frá því sem áður hafði verið ákveðið. Það þýðir að loðnukvóti íslenskra skipa verður áfram 100 þúsund tonn.

Rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson voru við vetrarmælingar á loðnu 1. – 17. febrúar í þeim tilgangi að endurmeta stærð veiðistofns loðnu. Auk þess tóku þrjú veiðiskip þátt í leiðangrinum. Árni Friðriksson hafði áður verið við mælingar í tæpar þrjár vikur janúar. Rannsakað var stórt hafsvæði á Grænlandssundi, undan Vestfjörðum og Norðurlandi og allt að sunnanverðum Austfjörðum.

Í leiðangrinum í janúar mældust 675 þúsund tonn af kynþroska loðnu, en í febrúar mældust mest um 500 þúsund tonn. Í ljósi þessara niðurstaðna leggur Hafrannsóknastofnun ekki til breytingar á áður útgefinni ráðgjöf um aflamark. Það þýðir að heildarafli loðnu hér við land verður um 173 þúsund tonn og þar af koma um 100 þúsund tonn í hlut íslenskra útgerða.