Litu á Ísland sem brandara í þorskastríðinu

03.02.2016 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Isaac Newton  -  Wikimedia Commons
Breska ríkisútvarpið BBC hefur birt viðtal við fyrrverandi sjómann sem segist bitur yfir því að hafa misst lífsviðurværi sitt í þorskastríðinu við Ísland árið 1975. Tom Watson segir í viðtalinu að í fyrstu hafi þetta verið eins og átök Davíðs og Golíats, breski fiskveiðiflotinn hafi verið sá stærsti í heimi og menn hafi litið á andstöðu Íslendinga við veiðarnar sem hálfgerðan brandara.

Viðtalið má sjá hér.

Watson segir að varðskip hafi ítrekað krafist þess að þeir hættu veiðunum en þeir hafi einfaldlega hunsað þau fyrirmæli og haldið áfram að veiða. 

Smám saman hafi þó afstaða Íslendinga harnað og það hafi orðið vatnaskil þegar togvíraklippunum frægu var fyrst beitt. Hann og félagar hans hafi náð að valda skemmdum á skrúfu varðskipsins Óðins með reipi en það hafi dugað skammt.

Á endanum hafi aðeins nokkur bresk skip verið eftir í íslenskri lögsögu og þeim síðustu hafi verið fylgt út úr landhelginni af íslenskum varðskipum. Watson áfellist fyrst og fremst bresku ríkisstjórnina fyrir að klúðra samningaviðræðum, hann segir að ef bresku sjómennirnir hefðu sjálfir fengið að sitjast að samningaborðinu með íslenskum stjórnvöldum hefði málið verið leyst nánast samstundis.

 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV