Litríkir gestir á Húsavík

17.05.2017 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Jónasson
Tvær mandarínendur hafa haldið sig á Húsavík undanfarna daga. Fuglarnir eru báðir steggir. Þeir eru skrautlegir, með appelsínugula fjaðraskúfa upp úr bakinu. Mandarínendur eru ættaðar frá Asíu en fjöldi þeirra hefur verið fluttur í andagarða í Evrópu. Að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun, koma fuglarnir frá Evrópu. „Í kringum fartímann er algengt að ýmsar tegundir anda komi til Íslands með öðrum andahópum,“ segir hann.

Stundum dvelja sjaldséðar andategundir hér á landi í nokkurn tíma, að sögn Kristins. Endurnar dvelja þá á sama stað enda eiga þær auðvelt með að komast af hér á landi yfir sumarið. Aðrar endur staldra skemur við.

Myndina tók Hörður Jónasson á þriðjudagskvöld þegar steggirnir tylltu sér niður í skrúðgarðinum við Búðará.

 

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir