Listaháskólinn flytji í húsnæði Landsbankans

03.03.2016 - 09:12
Húsnæðiskreppa Listaháskóla Íslands kostar skólann milli 50 og 100 milljónir króna á ári, að sögn Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektors skólans. Hún segir að vel hafi verið tekið í hugmyndir um að skólinn taki yfir byggingar á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis í miðbæ Reykjavíkur, sem nú hýsa Landsbanka Íslands.

Í dag er Listaháskólinn á fjórum stöðum í Reykjavík. Eldri byggingar eru afleitar, segir Fríða Björk. Þær standist til að mynda ekki kröfur um jafnrétti til náms, þar sem ekkert aðgengi er fyrir fatlað fólk.

Best heppnuðu listaskólar í heimi eru þeir sem að geta starfað í miklu samspili við sitt nærumhverfi. Og ég er ekki að segja að við gerum það ekki nú þegar, því við gerum það í miklum mæli. (...) En þetta myndi auðvelda okkur það starf til mikilla muna og við yrðum miklu sýnilegri í borgarmyndinni. Fyrir utan það að glæða borgina lífi. Ég held að það væri bara dáldið hressilegt að hafa þennan skóla í þessari bygginu, steinsnar frá Austurvelli og Alþingi. Þetta skapar svona heilbrigt jafnvægi í borgarmyndinni sem nú þegar er orðin töluvert einsleit, til dæmis vegna túrisma.

Sagði Fríða Björk á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir að hugmyndin hafi fengið góðar undirtektir frá bankanum og frá borgarstjóra. Ráðherrar menntamála og fjármála hafi sýnt málinu áhuga en ekki tekið afstöðu.

Fríða Björk segir að einnig komi til greina að skólinn verði í Lauganesinu. En þá þyrfti að breyta byggingum þar gríðarmikið.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi