Lilja Alfreðsdóttir: Fékkstu fjóra milljarða?

17.05.2017 - 16:51
Lilja biður Ólaf um að staðfesta að hann hafi hagnast um fjóra milljarða á þessum viðskiptum. Hún segist ekki skilja hvernig Ólafur geti sagt að blekkingum hafi ekki verið beitt þegar það liggi fyrir að þýski bankinn hafi ekki verið raunverulegur fjárfestir í þessum viðskiptum, sem sagt sölunni á Búnaðarbankanum. „Mér finnst það þurfa koma frá þér hvort þessi banki hafi einhvern tímann komið að þessum viðskiptum því hann naut ekki fjárhagslegs ávinnings?“

Ólafur vísar því á bug að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi verið blekking og telur upp ýmis atriði. Lilja tekur þá orðið af Ólafi og bendir á að þýski bankinn hafi ekki notið fjárhagslegs ávinnings og um það snúist málið.

Ólafur segir að þeir hafi notið fjárhagslegas ávinnings. „Hefurðu lesið samninginn?“ spyr Ólafur en Lilja heldur áfram að spyrja. „Nutu þeir fjárhagslegs ávinnings?“ Þetta snúi að því hvort þeir voru alvöru fjárfestar. 

„Geturðu ekki bara svarað spurningunni?“

Áfram heldur Lilja að spyrja hvort þeir hafi notið fjárhagslegs ávinnings. Ólafur virðist ekki svara spurningunni að fullu og Lilja heldur áfram að hamra á spurningunni. Nefndarmenn virðast vera þreyttir á tafsi Ólafs og Birgitta Jónsdóttir spurði: „Geturðu ekki bara svarað spurningunni?“ Ólafur segist geta það en spurningin verði að vera skýr. Lilja reynir þá að útskýra spurninguna.

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV