Líklegt samþykki fyrir milljarða viðbótarláni

08.04.2017 - 23:44
Líklegt þykir að frumvarp um milljarða aukafjárveitingu til Vaðlaheiðarganga verði samþykkt á Alþingi. Lektor við Háskólann í Reykjavík segir að álitsgerðir sem ákvarðanataka um göngin byggði á hafi um margt verið mótsagnakenndar og að framúrkeyrsla komi ekki á óvart, níu af hverjum tíu ríkisframkvæmdum fari fram úr kostnaðaráætlun.

Ríkisstjórnin samþykkti í gær að veita allt að fjögurra komma sjö milljarða króna lán vegna framúrkeyrslu við gerð Vaðlaheiðarganga. Einnig á að rannsaka hvað fór úrskeiðis. Fjármálaráðherra er ekki bjartsýnn á að göngin komi til með að standa undir sér með veggjöldum en formaður samgöngunefndar er ekki sama sinnis.

„Þessi framkvæmd mun gera svæðið að meiri heild sem atvinnusvæði og það þýðir að það verður aukin umferð um göngin en það getur tekið meiri tíma að greiða  niður þetta lán sem að ríkið hefur veitt og fyrir göngin að skila arði,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Til að veita lánið þarf að breyta lögum og þeir þingmenn sem fréttastofa hefur náð tali af eru sammála um að frumvarp þess efnis verði samþykkt, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson sem er einnig í umhverfis- og samgöngunefnd og þingmaður Framsóknarflokksins: „ Ég held að það geri það nú, þótt margir geri það með óbragð í munni. Þessi framkvæmd er komin það langt að það verður ekki snúið við eins og er. En það er alveg vert að velta því fyrir sér hvort undirbúningur hafi verið nógu góður.“

Þórður Víkingur Friðgeirsson hefur rannsakað framúrkeyrslu ríkisframkvæmda um margra ára skeið: „Það voru ýmisskonar greining sem lágu fyrir, um það er ekki deilt, en það er líka þannig að til grundvallar lágu mótsagnakenndar álitsgerðir og meðal annars heimamanna, sem þykir ekki góð lexía, því allir vilja göng og sérlega í sínu héraði svo þá getur farið svo að þegar reglurnar eru ekki skýrar að kappið beri fegurðina ofurliði eins og séra Friðrik segir.“  Og það getur hafa verið raunin í þessu tilviki? „Já, það var raunin í þessu tilviki,“ segir Þórður Víkingur. Hann segir framúrkeyrslu Vaðlaheiðarganga ekki koma á óvart, þótt ýmislegt hafi verið óvænt: „Það má segja að undirtekningalítið fari ríkisframkvæmdir framúr kostnaðaráætlun - 9 af hverjum 10 nánast.“

Þórður Víkingur segir Íslendinga eftirbát annarra þjóða hvað varði verkefnastjórnsýslu. En úr því sé hægt að bæta, til dæmis með því að skilgreina ýmiss konar snertifleti milli einkaframkvæmdar og hins opinbera.

Gunnar Bragi segir að þótt Vaðlarheiðargöng séu einkaframkvæmd þá eigi hún rétt á sér: „En það er algjörlega ljóst að ríkið verður að gera enn strangari kröfur til undirbúnings ef það er það sem er hægt að læra af þessu.“