Líkin hrönnuðust upp í lestarvögnunum

21.05.2016 - 12:35
Sigurlag Eurovision-söngvakeppninnar í ár, „1944“ með úkraínsku söngkonunni Jamölu, hefur valdið miklum deilum. Rússar segja lagið pólitískan áróður, sem reglur söngvakeppninnar banna, en það fjallar um það þegar sovésk stjórnvöld létu flytja nær alla krímtatörsku þjóðina nauðuga frá Krím til Úsbekistan árið 1944 — með þeim afleiðingum að tugþúsundir létu lífið.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallaði um sögulegan bakgrunn sigurlagsins, sögu Krímtatara og nauðungarflutninganna til Mið-Asíu. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Allri þjóðinni refsað

Krímtatarar eru afkomendur tyrkneskumælandi stríðsmanna í herjum Gengis Khans og arftaka hans og hafa búið á Krímskaganum öldum saman.

Eftir að sovéski herinn sigraði Krímskagann aftur eftir þriggja ára hernám Þjóðverja 1944 varð Jósef Stalín þess fullviss um að Krímtatarar hefðu upp til hópa unnið með þýska hernámsliðinu, og svikið Sovétríkin.

Sem refsingu fyrir þessi meintu landráð fyrirskipaði Stalín því í maí 1944 að öll krímtatarska skyldi flutt nauðug af heimahögunum og komið fyrir lengst austur í Úsbekistan í Mið-Asíu.

Troðið upp í gripavagna

Sovéska leynilögreglan NKVD fékk það verkefni að hafa umsjón með brottrekstri nærri tvö hundruð þúsund Krímtatara á örfáum dögum. NKVD-liðar ruddust inn á heimili fólks með offorsi snemma morguns þann 18. maí 1944, og fólk fékk örfáar mínútur til að pakka saman helstu eigum sínum.

Síðan tók við margra daga lestarferð þvert yfir Sovétríkin. Krímtatörunum var hrúgað um borð í gluggalausa gripa- og flutningavagna, að minnsta kosti fimmtíu manns í hverjum vagni, og svo var skellt í lás. 

Það var lítið um vatn og mat, engin hreinlætisaðstaða og lestirnar námu sjaldan staðar á langri leiðinni austur. Lík þeirra sem urðu hitanum, troðningnum, hungrinu eða óhreinlætinu að bráð hrönnuðust upp í þrengingunum í vagninum.

Talið er að allt að átta þúsund Krímtatarar hafi látið lífið á leiðinni til Mið-Asíu.

Vannæring og vosbúð

Þegar komið var á áfangastað tók svo ekki betra við. Í Úsbekistan höfðu krímtatörsku landnemarnir lítil sem engin réttindi, var komið fyrir í hálfgerðum fangabúðum eða á samyrkjubúum þar sem þeir þurftu að vinna þrotlausa erfiðisvinnu.

Við þessar erfiðu aðstæður dóu landnemarnir í hrönnum. Fræðimönnum hefur reiknast til að allt að 30-40 prósent allra Krímtatara í Úsbekistan hafi látið lífið á fyrstu árunum eftir brottreksturinn, úr vannæringu og vosbúð, og sjúkdómum eins og malaríu og taugaveiki sem grasseruðu í fangabúðum þeirra.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á mánudögum klukkan 14.03. 

Mynd: „Dauðalestin“ eftir krímtatarska málarann Rustem Eminov.