Líkamsræktardeila í Kópavogi fyrir dóm

21.02.2016 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Kópavogsbær
Líkamsræktarstöðin Gym ehf. hefur ákveðið að draga Kópavog fyrir dóm vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda um að rifta samningi við fyrirtækið um rekstur líkamsræktarstöðvar í tveimur sundlaugum bæjarins. Gym ehf. telur meðal annars að bæjaryfirvöld hafi óttast málsókn af hálfu World Class ef samningnum yrði ekki rift og nýtt útboð færi fram.

Bæjarráð Kópavogs hætti við samning við Gym í byrjun árs. Meirihlutinn taldi uppsögnina óhjákvæmilega þar sem ákvæði um ný tæki í líkamsræktarstöðvunum hefði ekki verið uppfyllt.

Líkamsræktaraðstaðan var því boðin út að nýju og á fundi bæjarráðs á fimmtudag var ákveðið að ganga til samninga við líkamsræktarstöðina Reebok Fitness sem átti hagstæðasta tilboðið.  

Þetta var í fjórða sinn sem bærinn bauð út þess aðstöðu en mikið er í húfi - samningurinn við bæjarfélagið hefur verið metinn á 201 milljón króna.

Ekki eru þó öll kurl komin til grafar því Gym hefur ákveðið að stefna bænum fyrir dóm og var stefnan kynnt á fundi bæjarráðs í vikunni. Gym krefst þess að bæjarfélagið standi við gerða samninga. Haldlaust sé að byggja riftunina á ákvæðum um endurnýjun tækja. Bænum hefði átt að vera ljóst að Gym myndi reka stöðvarnar tvær með þeim búnaði sem fyrir var en endurnýja hann samkvæmt áætlun.

Þetta er ekki fyrsta málsóknin sem Kópavogsbær stendur frammi fyrir vegna líkamsræktar fyrir bæjarbúa því World Class stefndi bænum eftir að samið var við Gym. Líkamsræktarkeðjan hafði átt hagstæðasta tilboðið í einu af útboðum bæjarins um aðstöðuna  - það var síðar metið ógilt þar sem fyrirtækið hafði ekki skilað endurskoðuðum ársreikningum.

World Class taldi að frambjóðendur og bæjarfulltrúar hefðu unnið markvisst gegn því að tilboði þess yrði tekið.