Líkamsleit á unglingsstúlku til saksóknara

14.01.2016 - 17:14
Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur sent mál, sem snýst um umdeilda líkamsleit á unglingsstúlku á Akranesi, til héraðssaksóknara til meðferðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum. Lögreglustjórinn telur að ekki hafi verið staðið rétt að verki.

Lögreglan á Vesturlandi fékk í ágúst ábendingu um að fíkniefni væri að finna í bíl sem var á ferð á svæðinu. Bíllinn var stöðvaður og þeir sem í honum voru færðir á lögreglustöð. 16 ára stúlka var í bílnum og var henni gert að afklæðast og beygja sig þannig að hægt væri að skoða hana, án snertingar. Engin fíkniefni fundust. Barnaverndaryfirvöldum var ekki gert viðvart og hefur bæjarstjórinn á Akranesi óskað eftir skýringum frá lögreglunni. Stúlkan hefur höfðað mál gegn ríkinu.

Samkvæmt lögum rannsakar héraðssaksóknari ásakanir um brot lögreglumanna í starfi. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir að málið hafi borist embættinu og sé þar til skoðunar.