Lík Georgíumannsins sem féll í Gullfoss fundið

13.08.2017 - 17:14
Tekið við leit að manni sem fór í Gullfoss í júlí 2016.
 Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Lögreglan á Suðurlandi telur að lík Nikas Begadze, sem féll í Gullfoss fyrr í sumar, hafi fundist í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór með félögum úr Björgunarsveitinni Eyvindi í leitarflug í dag. Þá fannst lík af karlmanni á austurbakka Hvítár, neðan Brúarhlaða.

Líkið hefur verið flutt á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í réttarmeinafræði til rannsóknar. Það verður krufið auk þess sem Kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinnur að því með réttarmeinafræðingi að bera kennsl á líkið. Lögreglan á Suðurlandi segir að sterkar líkur séu á því að líkið sé af Nika Begadze.

Nika Begadze féll í Gullfoss miðvikudaginn 19. júlí. Fólk tilkynnti lögreglu að það hefði séð mann í Hvítá við Gullfoss. Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna var kallað út, sem og þyrla Landhelgisgæslunnar og sjúkrabílar.

Begadze bjó í Reykjanesbæ og var með stöðu hælisleitanda. Skipulögð leit stóð yfir í þrjá daga en var síðan frestað. Þó var staðið að stökum leitum, eins og þeirri í dag þar sem líkið af Begadze fannst.