Lífið að komast í eðlilegt horf eftir Jónas

25.01.2016 - 01:24
epa05123754 A woman enjoys the snow in Central Park in New York, New York, USA, 24 January 2016. The East Coast of the US is beginning to recover from a major blizzard that dumped near-record amounts of snow in the region.  EPA/PETER FOLEY
 Mynd: EPA
Íbúar á austurströnd Bandaríkjanna vinna nú hörðum höndum að því að koma daglegu lífi í eðlilegt horf eftir kafaldsbylinn Jónas. Lægðin hafði áhrif á líf 85 milljóna íbúa um helgina.

Samgöngubanni hefur verið aflétt í New York borg, sem hefur aðeins einu sinni verið jafn snævi þakin frá árinu 1869. Yfir 90 sentimetra jafnfallinn snjór var í fimm ríkjum. Enn er mikil hálka á vegum í höfuðborginni Washington og vara yfirvöld íbúa við því að aka um götur borgarinnar. Muriel Bowser borgarstjóri óskar eftir aðstoð borgarbúa við að moka snjó í fjármálahverfi borgarinnar. Þing átti að hefjast á þriðjudag en ákveðið hefur verið að fresta því fram í byrjun febrúar.

28 létust af völdum lægðarinnar að sögn AP fréttastofunnar. Flestir létu lífið í bílslysum. Nokkrir létust af völdum hjartaáfalls við snjómokstur. 300 þúsund íbúar voru án rafmagns um helgina og um sjö þúsund flugferðum var frestað. Einhverjar tafir verða á flugi fram í vikuna og segir breska ríkisútvarpið BBC að minnst 615 ferðir falli niður á morgun.