Lífið á Spáni auðveldara

21.04.2017 - 13:28
Regína Róbertsdóttir flutti til Spánar ásamt eiginmanni sínum og 12 ára gamalli dóttur fyrir rúmum tveimur árum. Þau hjónin eru bæði öryrkjar og gekk illa að ná endum saman hér heima og ákváðu að freista þess að búa á Spáni í þeirri von um að þeim gengi betur að lifa af lífeyrinum þar.

„Lífið hér heima var bara ströggl, allt komið í vanskil og þetta gekk ekki upp.  Á endanum vorum við hætt að geta borgað leiguna því hún hækkaði bara og hækkaði,“ segir Regína. Hún segir að þau hafi verið hætt að fara til læknis því að ekki voru til peningar til að leysa út lyf. „Við lokuðum okkur bara inni, vorum hætt að gera nokkuð.“

Árið 2014 hafi þau því ákveðið að flytja til Spánar og freista þess að geta lifað betra lífi þar. Í fyrra ákváðu þau síðan að flytja lögheimili sitt til Spánar og eftir það hafi þau ekki þurft að borga krónu fyrir læknisþjónustu né lyf. Lífið á Spáni er mun auðveldara og betra á allan hátt fyrir fjölskylduna og Regína sér ekki fyrir sér að þau hafi efni á að flytja heim aftur, ekki á meðan leigan á Íslandi er svona há.

Regína kom í Mannlega þáttinn á Rás 1. Viðtalið í heild má heyra hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
Guðrún Gunnarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mannlegi þátturinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi