Líf og fjör á hinsegin dögum á Svalbarðseyri

14.09.2017 - 14:57
Mynd með færslu
 Mynd: Álfaborg/Valsárskóli  -  RÚV
Fjöldi barna og fullorðinna tók þátt í hinsegin skrúðgöngu á Svalbarðseyri í morgun. Tilefnið eru hinsegin dagar í leikskólanum og grunnskólanum. Skólastjóri segir mikilvægt að brýna fyrir börnum að það sé í lagi að vera eins og maður er. 

Í grunnskólanum Valsárskóla og leikskólanum Álfaborg á Svalbarðseyri í Eyjafirði eru hinsegin dagar nú haldnir í fyrsta sinn. Markmiðið er að vekja athygli á, og fagna, fjölbreytileika mannfólksins. Fjölmargir viðburðir eru á dagskrá þar sem börnin fá meðal annars að læra um ýmsar birtingarmyndir kynja og kynhneigða. 

„Við erum að vinna með tilfinningagreind og leiðtogaþjálfun í skólanum og reynum að styrkja krakkana þannig. Hluti af því er að búa til fjölmenningarlegt umhverfi og að nemendur viti að það sé í lagi að vera eins og maður er,“ segir Inga Sigrún Atladóttir skólastjóri. 

Mynd með færslu
 Mynd: Álfaborg/Valsárskóli  -  RÚV

Hún segir að í hefðbundnu skólastarfi sé lögð áhersla á fjölbreytileika, en í ár hafi verið gengið lengra og blásið til hátíðar til að vekja athygli á málefninu. Í gær komu fulltrúar frá hinsegin samtökum á Norðurlandi og fluttu fyrirlestra, meðal annars um ólíkar tegundir fjölskyldna. „Nemendur tóku þessu bara mjög vel, spurðu mikið í fræðslunni og voru áhugasöm,“ segir Inga Sigrún. Í morgun gengu nemendur og kennarar fylktu liði um þorpið, þar sem skrautlegir litir, glimmer og pallíettur voru í fyrirrúmi. 

Samtals eru 74 nemendur í grunnskólanum og leikskólanum. Spurð hvort hætta sé á einsleitni í jafn fámennum skólum segir Inga Sigrún að þau hafi verið svo heppin að fá til sín aðkomufólk á undanförnum árum, meðal annars erlenda nemendur. „Þannig að þetta eru ekki allt sömu ættirnar heldur verður til ákveðin blanda,“ segir hún og bætir við að þess vegna sé sérlega mikilvægt að vekja nemendur til umhugsunar um málefnið og hjálpa þeim að skilja að það eru ekki allir eins. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Álfaborg/Valsárskóli  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Álfaborg/Valsárskóli  -  RÚV
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV