Leyniáætlun um viðbrögð við sigri Le Pen

epa05944346 French presidential election candidate the the far-right Front National (FN) party, Marine Le Pen, delivers a speech during an outdoor campaign rally in Ennemain, Northern France, 04 May 2017. France will hold the second round of the
 Mynd: EPA
Sigur Marine Le Pen í frönsku forsetakosningunum hefði leitt til þess að leynileg viðbragðsáætlun sem ætlað var að „tryggja friðinn“ í landinu hefði verið hrundið í framkvæmd. Franskir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær. Áætlunin var aldrei fest á blað og henni var aldrei gefið nafn, en hún var til staðar engu að síður til að „verja Lýðveldið“ ef svo skyldi fara að Marine Le Pen yrði kosin forseti.

Tímaritið l'Obs hefur eftir ónefndum en háttsettum embættismanni að hugmyndafræðin  að baki áætluninni og hið ófrávíkjanlega markmið hennar hafi verið að tryggja friðinn, en gæta þess um leið að virða stjórnarskrána í hvítvetna.

Blaðamaður l'Obs hefur þrjá ónafngreinda heimildarmenn fyrir því, að leyniáætlunin hafi verið samin af þröngum hópi ráðherra og háttsettra embættismanna. Áætlunin hafi fyrst og fremst miðað að því að koma í veg fyrir fjöldaóeirðir og „frysta“ ástandið á vettvangi stjórnmálanna með því að kalla þingið saman til neyðarfundar og tryggja áframhaldandi setu forsætisráðherrans úr stjórn fráfarandi forseta, það er að segja Berndards Cazeneuves, sem var forsætisráðherra í stjórn Francois Hollande.

Hermt er að lögregla og leyniþjónusta hafi haft hvað mestar áhyggjur af heiftarlegum og ofbeldisfullum viðbrögðum mótmælenda úr röðum öfgasinnaðra vinstrimanna við sigri Le Pens og óttast að landið myndi ramba á barmi stjórnleysis. Le Parisien greinir frá því að í trúnaðargögnum leyniþjónustunnar frá því fyrir fyrri umferð kosninganna komi fram að yfirmenn löggæslu- og öryggismála í hverju einasta lögsagnarumdæmi landsins hefðu lýst áhyggjum sínum af mögulegum viðbrögðum við sigri Le Pen.

Þá var varað við því, samkvæmt heimildum l'Obs, að mótmælendur væru tilbúnir að beita flugeldum, eldsprengum og sprengjuvörpum ef í harðbakkan slægi. Áhyggjurnar af óstöðugleika og stjórnleysi í stjórnmálaheiminum, með Le Pen í forsetahöllinni, voru líka miklar. Í umfjöllun The Guardian um þetta er rifjað upp að franskir fjölmiðlar greindu frá því fyrir kosningar, að Cazeneuve myndi sitja sem fastast í forsætisráðuneytinu, að minnsta kosti fram að þingkosningunum í júni, færi Le Pen með sigur af hólmi.

Cazeneuve neitaði þessu þá, aðspurður, en samkvæmt heimildum blaðanna nú, var þetta vissulega í kortunum sem hluti af neyðaráætluninni. Það er ekkert í frönskum lögum sem segir að forsætisráðherra þurfi að segja af sér þegar nýr forseti er kosinn, þótt hefðin mæli fyrir um það. Samkvæmt heimildum l'Obs var meiningin að kalla þingið saman á neyðarfund og eggja þá til að „standa undir skyldum sínum við lýðveldið“ með því að lýsa fullu trausti á ríkisstjórn Cazeneuves. Lýðræðið hefði þannig verið virt að fullu - Le Pen hefði orðið forseti, en rétt kjörin ríkisstjórn, með þingmeirihluta að baki sér, hefði „tryggt öryggi ríkisins.“

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV