Lést eftir mánuð í bilaðri lyftu

06.03.2016 - 08:13
Loftræstingarkerfi utan á fjölbýlishúsi.
 Mynd: Robert  -  RGBStock
Kona fannst látin í lyftu í fjölbýlishúsi í Kína í byrjun mánaðarins, þrjátíu dögum eftir að rafmagn var tekið af lyftunni. Verkamennirnir sem gerðu við lyftuna hafa verið handteknir fyrir manndráp af gáleysi.

Verkamönnunum er gefið að sök að hafa ekki litið eftir því hvort einhver væri inni í lyftunni þegar rafmagnið var tekið af. Hverfisstjórn Gaoling, í borginni Xi'an, greindi frá því í gær að tveir viðgerðamenn hafi slegið út rafmagn lyftunnar 30. janúar þegar þeir voru kallaðir út vegna bilunar. Þeir komu aftur 1. mars til þess að gera við hana og fundu þá lík konu á fimmtugsaldri í lyftunni.

Lögregla telur ekki að konan hafi verið skilin eftir í lyftunni af ásettu ráði heldur hafi viðgerðamennirnir sýnt af sér vítavert gáleysi. Þeir verða því ákærðir fyrir manndráp af gáleysi að sögn breska dagblaðsins Guardian.
Öryggi á vinnustað er víða ábótavant í Kína og eru öryggisreglur oft virtar af vettugi í landinu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV