Lentir eftir nærri ársdvöl í geimnum

02.03.2016 - 03:53
This photo taken from video provided by NASA shows astronaut Scott Kelly, center, help gather equipment for U.S. astronaut Tim Kopra, left, and British astronaut Tim Peake, as they prepare for a space walk at the International Space Station on Friday, Jan
 Mynd: AP  -  NASA
Bandaríski geimfarinn Scott Kelly og Mikhail Kornienko, rússneskur starfsbróðir hans, lentu heilu og höldnu í Kasakstan um klukkan hálf fimm í morgun eftir tæplega árs dvöl í geimnum. Dvöl Kellys var sú lengsta í sögu bandarískra geimferðalaga.

Vísindamenn á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA, munu nú rannsaka áhrif svo langrar dvalar í geimnum á líkamann. Líkamlegt ástand Kellys verður borið saman við tvíburabróður hans, Mark Kelly, sem hefur haldið sig á jörðinni. Dvöl í geimnum veldur til dæmis vöðvarýrnun, svefnvandamálum, beinminnkun, sjónskerðingu og geislun.

Sjálfur sagði Scott við blaðamenn áður en hann fór úr Alþjóða geimstöðinni að hann væri í ágætu líkamlegu ástandi. Það erfiðasta við dvölina væri líkamlega einangrunin frá þeim sem honum þykir vænt um á jörðu niðri. Það væri ákveðið sambandsleysi.

Niðurstöður mælinganna verða eflaust notaðar til þess að undirbúa mannaðar ferðir til Mars. NASA áformar að senda geimfara til plánetunnar, en aðeins aðra leiðina. Niðurstöðurnar eiga því að öllum líkindum eftir að gefa einhverja mynd af því hversu lengi tilvonandi Mars-farar eiga eftir að endast.
Kelly verður flogið frá Kasakstan til Houston eftir að hafa undirgengist læknisskoðun.

Auk þeirra Kelly og Kornienko kom Rússinn Sergey Volkov sem dvaldi í geimstöðinni í fimm mánuði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV