Leitinni að fegursta orðinu lýkur í kvöld

22.10.2013 - 13:02
Mynd með færslu
Frestur til þess að skila inn tillögu að fegursta orði íslenskrar tungu rennur út á miðnætti í dag. Þegar hafa 7.350 tillögur borist.

Senda hafa verið inn tillögur um 2.554 orð. Dæmi um orð sem hafa borist í samkeppnina eru daggardropi, hugmyndaflug, gnægð, rökkur, angurværð og ljóstillífun. 

Þegar lokað hefur verið fyrir það að fólk geti sent inn tillögur á vefsíðuna fegursta orðið punktur is tekur sjö manna starfshópur við öllum tillögunum og velur úr þrjátíu, tíu í hverjum aldursflokki. Yngsti aldursflokkurinn er sextán ára og yngri, þá sextán til 25  ára og loks þeir sem eru eldri en 25. Starfshópurinn leggur mat á orðin og ástæðurnar sem gefnar eru fyrir vali fólks á því. 

5 til 11. nóvember gefst almenningi síðan kostur á að velja milli orðanna sem verða birt á vefsíðunni fegurstaordid.is. Endanlega niðurstaða um fegursta orð íslenskrar tungu að mati þjóðarinnar verður tilkynnt fimmtánda nóvember, daginn fyrir dag íslenskrar tungu. Þar með er þessu þó ekki lokið því til stendur að gefa út bók með öllum tillögunum og ástæðunum sem gefnar eru fyrir valinu á þeim. 

Guðmundur Hörður Guðmundsson, vef- og kynningarstjóri Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, sem stendur að leitinni að fegursta orðinu ásamt Ríkisútvarpinu, segir að grunnskólar hafi verið mjög duglegir að taka þátt í leitinni. Henni lýkur sem fyrr segir á miðnætti í kvöld.