Leit 30 ár fram í tímann

13.09.2017 - 21:07
Borgaralaun voru innleidd í skrefum og kom öllum á óvart hversu mikill sparnaður fólst í því, sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún setti sig í spámannsstellingar og gerði sér í hugarlund hvernig landsmálin myndu þróast næstu þrjá áratugina.

Framtíðarspáin birtist á meginstefnumálum Pírata um að uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá, tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum, endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku og endurvekja traust og tækla spillingu. 

Birgitta sá fyrir sér að ný stjórnarskrá yrði samþykkt að kröfu almennings í kringum hundrað ára afmæli lýðveldisins, 2044. Fólk hafi verið virkjað í raunheimum og með sýndarveruleikatækni. Það væri þó ekki fyrr en að yfirstöðnu stóru hruni árið 2020. 

Birgitta sá fyrir sér veröld þar sem búið væri að taka á fjárglæfrastarfsemi, taka á umhverfismálum til að bjarga þjóðinni og auka sjálfstæði þingmanna og auka gagnsæi í samfélaginu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV