Leikskóli 49% dýrari í Garðabæ en Reykjavík

19.01.2016 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Öll 15 stærstu sveitarfélög landsins hafa hækkað leikskólagjöld sín frá því í fyrra, nema Seltjarnarnes þar sem þau lækka umtalsvert. Hæstu leikskólagjöldin fyrir átta tíma vistun eru í Garðabæ og þar eru þau 49% hærri en á ódýrasta staðnum, Reykjavík. Þetta kemur fram í nýrri könnun ASÍ.

Mesta gjaldskrárhækkunin var 5,3% hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, úr 32.597 kr. í 34.327 kr. eða um 1.730 kr. á mánuði og um 5,1% hjá Vestmannaeyjabæ úr 34.305 kr. í 36.068 kr. Hækkunin var 4,5% hjá Kópavogsbæ, 4% hjá Akureyrarkaupstað og milli 3-4% hjá Garðabæ, Fljótsdalshéraði, Akraneskaupstað, Fjarðabyggð og Árborg. Hækkunin var minni hjá Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Reykjavíkurborg eða um 1%. Seltjarnarneskaupstaður er eina sveitarfélagið sem hefur lækkað gjaldskrána á milli ára en 2015 kostaði mánuðurinn 31.479 kr. en nú 25.495 kr. sem er 5.984 kr. lækkun eða 19%. Þetta jafngildir 65.824 kr. miðað við 11 mánuði á ári.

Mikill verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrá sveitarfélagana fyrir 8 tíma vistun ásamt fæði. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu er 37.570 kr. hjá Garðabæ en lægst er það 25.280 kr. hjá Reykjavíkurborg sem er 12.290 kr. verðmunur á mánuði eða 49%.

Hér má sjá nánari upplýsingar um verð á leikskólaplássum.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV