Leikhópurinn Lotta í hörðum árekstri -myndband

06.06.2017 - 13:39
„Hjól fara undan, rúður brotna, hávaðinn er ægilegur,“ segir í færslu á Facebook-síðu Leikhópsins Lottu sem ferðast um landið og sýnir barnaleikrit. Hópurinn nær að halda sínu striki þrátt fyrir að hafa lent í hörðum árekstri rétt fyrir utan Egilsstaði seint á föstudagskvöld. Enginn slasaðist alvarlega en sérútbúinn bíll hópsins er ónýtur.

Ökumaður fólksbíls grunaður um ölvun

Tveir úr leikhópunum voru að ferja leikhúsbílinn norðurleiðina austur með þunga kerru í eftirdragi en lentu í svartaþoku þegar um 10 kílómetrar voru eftir í Egilsstaði. Skyndilega kemur út úr þokunni bíll á öfugum vegarhelmingi og rekst utan í bæði bílinn og kerruna. Ökumaður fólksbílsins lét sig hverfa fótgangandi af slysstað en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi er hann grunaður um ölvun. Í áðurnefndri færslu segir að allir hafi verið fluttir til aðhlynningar en sloppið með minniháttar meiðsl. Bíll og kerra séu ónýt en leikmynd og búnaður, sem þarf til að setja upp Litla ljóta andarungann, virðist hafa sloppið að mestu.

Bíllinn sérútbúinn fyrir Lottu

Stefán Benedikt Vilhjálmsson leikari hjá Lottu segir að leikhópurinn hafi lítið sofið um nóttina sem hafi farið í að hlúa hvert að öðru og bjarga málum, útvega sendibíl og jeppa. „Við töfðumst um 20 mínútur á Egilsstöðum og 10 mínútur á Reyðarfirði,“ segir Stefán en fréttastofa náði tali af honum í morgun þar sem Lotta var nýbúin að sýna atriði í Smáraskóla í Kópavogi. Hann segir að það sé vont að missa bílinn og kerruna sem séu sérútbúin fyrir sýningar hópsins. Slysið eigi þó ekki að skemma sumarið fyrir Lottu. „Við höldum ótrauð áfram en þurfum að lagfæra nokka hluti fyrir sýninguna í Elliðaárdalnum á morgun,“ segir Stefán. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV