Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Úganda í haldi

22.02.2016 - 12:01
Mynd með færslu
Hópur lögreglumanna mætti í dag á heimili Kizza Besigye og hafði hann á brott með sér.  Mynd: Twitter
Lögregla í Úganda handtók í dag Kizza Besigye, helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu og flutti á lögreglustöð.

Yoweri Museveni forseti sigraði í síðustu viku með yfirburðum í forsetakosningum í landinu með sextíu prósentum atkvæða gegn 35 prósentum sem Besigye hlaut. Hann hefur verið handtekinn þrisvar sinnum á einni viku og hafði verið í stofufangelsi frá því á föstudag.

Besigye neitar að fallast á úrslit forsetakosninganna. Hann er sakaður um að hafa boðað stuðningsmenn sína til mótmælagöngu í dag. Að sögn lögreglunnar hafði hann ekki leyfi fyrir mótmælum.

Yoweri Museveni hefur verið við völd í Úganda í þrjátíu ár. Besigye hefur fjórum sinnum tapað fyrir honum í forsetakosningum.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV