Leiðtogar Ísraels og Rússlands funda í vikunni

20.08.2017 - 06:53
Russian President Vladimir Putin meets with heads of major foreign companies at the St. Petersburg International Economic Forum in St. Petersburg, Russia, Friday, June 2, 2017. (Sergei Savostyanov/TASS News Agency Pool Photo via AP)
 Mynd: AP Images
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, fer til Rússlands á miðvikudag til fundar við Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Helsta umræðuefni þeirra verður stríðið í Sýrlandi, að sögn AFP fréttastofunnar.

Leiðtogarnir ræðast við í borginni Sochi við Svartahaf. Samkvæmt yfirlýsingu forsætisráðuneytis Ísraels ætla þeir að tala um gang mála í Sýrlandi. Ríkin standa nokkurn veginn með sitt hvorum hópnum í borgarastríðinu, en hafa náð að forðast árekstra. Rússar berjast við hlið forsetans Bashars al-Assads og stjórnarhers hans. Ísrael hefur hingað til ekki dregist inn í átökin í Sýrlandi nema með óbeinum hætti. Ísraelsher hefur gert árásir til að koma í veg fyrir vopnaflutninga til líbönsku skæruliðahreyfingarinnar Hezbollah, sem berst við hlið stjórnarhers Sýrlands. Alls hefur Ísraelsher gert nærri 100 árásir síðustu fimm ár á vopnaflutningalestir til vígahreyfinga sem berjast í Sýrlandi.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV