Leiðréttir laun 19 mánuði aftur í tímann

23.06.2017 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: isavia
Kjararáð ákvað á fundi sínum í vikunni að leiðrétta laun forstjóra FME, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar og varaforseta Hæstaréttar um 19 mánuði eða frá 1. janúar 2016. Laun sendiherra, ferðamálastjóra og ríkisendurskoðanda voru leiðrétt um heilt ár eða frá 1. júlí 2016.

Mál forstjóra FME hefur verið á borði kjararáðs síðan í ágúst 2015.

Í bréfi fjármála-og efnahagsráðuneytisins til ráðsins í mars á síðasta ári kemur fram að verulegar breytingar hafi orðið á launum í þjóðfélaginu og að FME gæti átt erfitt með að halda í starfsfólk sem stofnuninni væri nauðsynlegt til að rækja hlutverk sitt.

Stjórnarformaður FME benti enn fremur á að laun forstjórans næmi um helming algengra launa millistjórnenda í banka og forstjóri FME nefndi sem dæmi að hann væri með lægri laun en seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri.

Kjararáð ákvað því að leiðrétta launin frá 1. janúar 2016 og eru laun forstjórans með yfirvinnu nú tæpar 1,8 milljónir. Ekki kemur fram í úrskurðinum hver launin voru fyrir.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, á skrifstofu sinni.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.  Mynd: RÚV
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME.

Laun framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar voru einnig leiðrétt frá 1. janúar 2016. en endurskoðun launa hans hafa verið á borði kjararáðs frá því í október 2015.

Stjórnarformaður Fríhafnarinnar sagði í bréfi til kjararáðs að laun framkvæmdastjórans hefðu dregist verulega aftur úr miðað við laun stjórnenda í sambærilegum atvinnurekstri og þá hafi orðið gríðarleg aukning í umsvifum Fríhafnarinnar. Þetta megi ekki síst rekja til aukins straums ferðamanna til Íslands.

Kjararáð ákvað að laun framkvæmdastjórans með yfirvinnu yrðu rúmar 1,2 milljónir. Ekki kemur fram hver laun framkvæmdastjórans voru fyrir.

Þá voru laun varaforseta Hæstaréttar sömuleiðis leiðrétt frá 1. janúar 2016. Þau verða samkvæmt úrskurði kjararáðs rúmar 1,4 milljónir ásamt yfirvinnu en ekki kemur fram í úrskurðinum hversu há upphæð það er og ekki heldur hver laun varaforsetans voru fyrir.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv  -  rúv

Þá voru laun ríkisendurskoðanda og sendiherra leiðrétt ár aftur í tímann eða frá 1. júlí 2016. Í úrskurði kjararáðs varðandi ríkisendurskoðanda kemur fram að hann sé sérstakur trúnaðarmaður Alþingis, hann sé sjálfstæður og engum háður í störfum sínum. Laun hans verða tæpar 1,8 með yfirvinnu en ekki kemur fram í úrskurðinum hver laun hans voru fyrir. 

Í úrskurði kjararáðs varðandi sendiherra kemur fram að utanríkisráðuneytið telji að vegna ýmissa ákvarðana kjararáðs hafi sendiherrar dregist aftur úr grunnlaunum annarra embættismanna ínnan Stjórnarráðsins.  Laun sendiherra verða samkvæmt úrskurðinum 989.836 krónur. Auk þess fá sendiherrar sem hafa mannaforráð fasta yfirvinnu upp á rúmar 315 þúsund. Sendiherrar sem eru við störf í utanríkisráðuneytinu fá fasta yfirvinnugreiðslu upp á rúmar 190 þúsund.  Ekki kemur fram í úrskurðinum hver laun sendiherra voru fyrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV