Laxeldi: Vilja sanngirni fyrir íbúa við Djúpið

16.08.2017 - 15:13
Bolungavík Bolungavík
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar skorar á sjávarútvegsráðherra að horfa til íbúa á norðanverðum Vestfjörðum þegar ákvarðanir verði teknar um framtíð fiskeldis í Ísafjarðardjúpi.

Í bókun bæjarráðs segir að hagsmunir íbúa á svæðinu eigi að njóta sanngirni í ákvörðunum þar sem hagræn áhrif hljóti að skipta máli þegar framtíð fiskeldis á svæðinu er ákveðin. Það sé fyrirsjáanlegt að hagræn áhrif fiskeldis muni hafa mikil og jákvæð áhrif á byggðina við Ísafjarðardjúp auk þess að þjóðarbúið muni njóta góðs af fiskeldinu til lengri tíma litið.  

Þrjú fyrirtæki áforma stórfellt laxeldi í Ísafjarðardjúpi en samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun laxastofna er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Áhættumatið var unnið fyrir starfshóp á vegum ráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Til stendur að starfshópurinn ljúki vinnu sinni í dag og að vinna hennar fari fyrir ríkisstjórn á föstudaginn.