Laus eftir 43 ára einangrunarvist

20.02.2016 - 07:10
Albert Woodfox pumps his fist as he arrives on stage during his first public appearance at the Ashe Cultural Arts Center with Parnell Herbert, right, in New Orleans, Friday, Feb. 19, 2016 after his released from Louisiana State Penitentiary in Angola, La.
Woodfox var frelsinu feginn.  Mynd: AP  -  FR171354 AP
Eftir 43 ára einangrunarvist er Bandaríkjamaðurinn Albert Woodfox frjáls maður. Enginn fangi hefur verið vistaður í einangrun jafn lengi og Woodfox. Hann var dæmdur fyrir morð á fangaverði árið 1972 en hann hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. Honum var sleppt eftir að hafa samþykkt ákæru fyrir manndráp.

Woodfox er nú 69 ára gamall. Tvisvar hefur endurupptöku á máli hans verið vísað frá dómstólum í Lousianaríki í Bandaríkjunum. Verið var að undirbúa þriðju endurupptökuna þegar hann ákvað að játa á sig manndráp í stað morðs og hljóta frelsi fyrir. Hann ítrekaði þó að hann væri ekki að játa fyrir að hafa framið glæpinn.

Í yfirlýsingu sem send var út í gær segist hann hafa hlakkað til að sanna sakleysi sitt fyrir dómstólum. Heilsufar og aldur hans hafi hins vegar fengið hann til þess að útkljá málið á þennan hátt til þess að öðlast frelsi. 
Woodfox segist ætla að heimsækja leiði móður sinnar við fyrsta tækifæri eftir frelsið. Hún lést á meðan hann sat inni og var honum ekki leyft að vera viðstaddur jarðarförina.

Honum var gefið að sök að hafa átt þátt í að drepa fangavörð. Hann var sakaður um að hafa haldið honum á meðan aðrir fangar hafi stungið vörðinn til bana. Að sögn lögfræðinga Woodfox sat hann í einangrunarklefa 23 tíma sólarhrings. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV