Laun hækka fyrr og tryggingagjaldið lækkar

21.01.2016 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri  -  RÚV
Aðilar vinnumarkaðarins undirrituðu nýjan kjarasamning í dag, sem byggir á Salek rammasamkomulaginu svokallaða og hækkar laun fyrr en gert var ráð fyrir. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist hafa vilyrði frá fjármálaráðherra að tryggingagjaldið verði lækkað í áföngum.

Samkvæmt nýja samningnum hækka almenn laun um 6,3 prósent frá 1. janúar, í stað 5,5 prósenta launaþróunartryggingar sem átti að raungerast í maí. Þá verður ráðist í 4,5 prósenta almenna launahækkun í maí á næsta ári og þriggja prósenta almenna launahækkun árið eftir.

Mótframlag vinnuveitanda hækkar

Lífeyrisréttindi á almennum markaði hækka úr 56 prósentum í 76 prósent af meðalævitekjum og jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, og þá hækkar í áföngum mótframlag atvinnurekenda um 3,5 prósent, úr átta prósentum í 11 og hálft prósent. Laun hækka því um 6 og hálft prósent þegar allt er tínt til.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir samninginn mikilvægt innlegg í Salek rammasamkomulagið, til að tryggja sambærilega launaþróun á almenna og opinbera vinnumarkaðinum til ársloka 2018.

„Það standa upp á stjórnvöld auðvitað efndir á yfirlýsingunni frá því í fyrrasumar, stóra málið auðvitað húsnæðismálin, og við treystum því að það verði búið að afgreiða það fyrir lok febrúar, en það er þess tíma að taka afstöðu til þess. En nú getum við sem sagt sest að þessari vinnu, og við munum kalla til okkar félagsmenn og aðildarfélög til að móta innihald í nýja módelið og okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja þá vinnu. Hún hefur auðvitað svolítið beðið, á meðan var verið að glíma við þetta, en nú er það komið,“ segir forseti ASÍ í samtali við fréttastofu. 

Loforð frá fjármálaráðherra um lækkað tryggingagjald

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir nýja samninginn treysta frið á vinnumarkaði til ársins 2018, og marka spor í átt að nýju vinnumarkaðsmódeli. Hann segist hafa fengið vilyrði fyrir því í dag hjá Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að tryggingagjaldið verði lækkað í áföngum, sem sé grundvöllur fyrir framhaldinu. Hann vill þó ekkert gefa upp um hvort orðið hafi verið við helstu kröfu SA, að tryggingagjaldið lækki um 1,5 prósent.

„Það er alveg ljóst að við hefðum ekki treyst okkur til undirritunar á þessu samkomulagi nema við teldum að við værum á sama vallarhelmingi í þeim efnum,“ segir Þorsteinn í samtali við fréttastofu.   

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV